140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum búin að fara tvisvar sinnum í gegnum þessa umræðu í dag. En varðandi spurningar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um viðmið í fjárlögum og fleiri tölulegar upplýsingar þá var ég ekki undirbúin til að svara þeim en mér er ljúft að gera það við annað tækifæri.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr hvort ekki sé einmitt tilefni til að lækka verðið núna þegar hækkunin hefur orðið svona mikil. Við fórum í gegnum þá umræðu fyrr í dag þar sem ég fór yfir rökin fyrir því af hverju við ættum ekki að lækka verðið þó að okkur sé öllum ljóst að þetta verð kemur illa við heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er ekki svo að hér sé einhver kúfur á ferðinni og það er ekkert sem bendir til annars en að olíuverð muni hækka til framtíðar. Því verðum við að grípa til víðtækari og skynsamlegri ráðstafana sem eru meðal annars orkuskipti í samgöngum, þar eigum við að leggja áhersluna og hugsa þannig til framtíðar. Þar erum við bæði að tala um endurnýjanlega orkugjafa og að stuðla að auknu orkuöryggi í landinu þar sem þjóðin treystir allt of mikið á olíu og bensín. Við þurfum að vinna að því og breyta því þannig að það er ágætt að taka þá umræðu í samhengi við vörugjöld á olíu og bensín.