140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun raforkuverðs.

337. mál
[17:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna áratugi höfum við fylgt þeirri stefnu almennt í verðlagningu á raforku að reyna að gæta nokkuð hófs, án þess þó auðvitað að stefna í voða eðlilegum arðsemismarkmiðum og uppbyggingu raforkufyrirtækjanna. Þannig hefur það verið tryggt að afraksturinn af nýtingu þessara mikilvægu auðlinda, orkuauðlindanna okkar, hafi ratað til atvinnulífsins og almennings í landinu í formi lægra orkuverðs. Við getum sagt að þessi markaður sé tví- eða þrískiptur, þ.e. annars vegar almenningur, almenn fyrirtæki og síðan stóriðjufyrirtækin sem búa við þá sérstöðu að þar eru gerðir langtímaorkusamningar sem endurspegla auðvitað að þar er um að ræða samkeppni frá útlöndum. Þess vegna, eins og kom fram í máli forstjóra Landsvirkjunar á haustfundi Landsvirkjunar í haust, endurspegla þeir orkusamningar sem nú eru í gildi að nokkru leyti það orkuverð sem hefur gilt í Evrópu en það verð hefur síðan hækkað talsvert frá því að flestir þessir samningar voru gerðir.

Samkvæmt því sem meðal annars kemur fram í ritinu Heildstæð orkustefna fyrir Ísland er gert ráð fyrir því að orkuverðið í Norður-Evrópu muni hækka um hér um bil 100% frá árinu 2010 fram til ársins 2030. Í gögnum sem fylgdu ræðu forstjóra Landsvirkjunar og raunar annarra starfsmanna Landsvirkjunar á ársfundinum síðastliðið haust, sem ég sat, kemur glögglega fram að þróunin er mjög skýr í Evrópu. Þar fer orkuverðið mjög hækkandi og það gildir bæði um lönd Norður-Evrópu og raunar almennt innan OECD. Tilhneigingin virðist vera klárlega í þá átt að orkuverð fari hækkandi og spár manna, þó að þær séu auðvitað óvissu háðar, gera líka ráð fyrir að orkuverð haldi áfram að hækka eins og ég nefndi áðan. Það kemur líka fram í gögnunum frá Landsvirkjun.

Í máli forstjóra Landsvirkjunar kom fram að ætlunin væri að taka upp þá stefnu að samningsmarkmið Landsvirkjunar yrði að hækka orkuverð almennt, bæði til stóriðjunnar, almennings og fyrirtækjanna í landinu þannig að verðið mundi elta meira hækkun á orkuverði í Evrópu. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra þessarar einföldu spurningar: Hver verður þróun raforkuverðs á næstu árum á almennum markaði miðað við áform Landsvirkjunar um aukna arðsemi og að orkuverð fyrirtækisins fylgi þróun orkuverðs í Evrópu?