140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun raforkuverðs.

337. mál
[18:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með þessa umræðu um þetta mikilvæga mál. Það er gott að eiga andsvar við hæstv. iðnaðarráðherra.

Við höfum rætt á undangengnum árum þann vanda sem blasir við heimilum á svokölluðum köldum svæðum sem borga margfalt hærra raforkuverð en hin 90% þjóðarinnar og það óréttlæti sem í því felst. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra geti sagt okkur einhverjar fréttir af því að jafna eigi þennan aðstöðumun. Það er ójafnrétti að sumir þurfi að borga margfalt hærri raforkureikninga fyrir það eitt að kynda heimili sín og lýsa þau upp en þorri landsmanna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í þetta, sérstaklega í ljósi þess sem hér hefur komið fram að mögulega eru fram undan enn meiri hækkanir á raforku. Ef þær hækkanir fara út í verðlagið, í ljósi þess mikla bils sem er á milli þessara tveggja þjóðfélagshópa, (Forseti hringir.) verður enn dýrara að kynda heimilin á hinum svokölluðu köldu svæðum.