140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun raforkuverðs.

337. mál
[18:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Auðlindarentan, arður þjóðarinnar af auðlindinni sem felst í vatnsaflsvirkjununum, kemur að hluta til en aðeins að hluta til til almennings, til þjóðarinnar í lægra raforkuverði en tíðkast í nágrannaríkjunum. Líklegt er að þetta raforkuverð geti ekki haldist svona lágt í framtíðinni eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson rakti áðan. Þá stöndum við auðvitað frammi fyrir þeirri spurningu: Viljum við niðurgreiða raforku til almennings að jafnaði eða viljum við að arðurinn fari með öðrum hætti til eigenda sinna? Þetta er eitt af pólitískum verkefnum næstu áratuga. Ég held að þó að niðurgreiðsluleiðin komi að sjálfsögðu vel til greina og verði örugglega notuð til bráðabirgða, komumst við ekki hjá því að markaðsverðið ráði að lokum og því verðum við að mæta með öðrum hætti.