140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun raforkuverðs.

337. mál
[18:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessi svör og sömuleiðis umræðuna. Ég held að myndin sé að verða mjög skýr. Hún hefur smám saman verið að birtast okkur, fyrst í hinni nýju orkustefnu sem ríkisstjórnin hefur kynnt og núna með svari hæstv. ráðherra og stefnan er þessi:

Á næstu 20 árum á orkuverð í landinu að hækka um 100% að raungildi. Það þýðir að væntanlega þarf að hækka orkuverðið um 4–5% að raungildi á hverju einasta ári. Þá er fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra: Hvenær verður þessari stefnu hrint í framkvæmd? Verður til dæmis á þessu ári tekið skref í þessa átt í samræmi við það sem er greinilega vilji hæstv. ráðherra og kemur greinilega fram í stefnumótun Landsvirkjunar? Þetta mun auðvitað líka hafa áhrif út á smásölumarkaðinn. Það er alveg ljóst að hér er smám saman að fæðast klár og skýr orkustefna sem felur í sér brotthvarf frá þeirri orkustefnu sem við höfum fylgt, sem hefur falist í því að við höfum reynt að láta atvinnulífið og almenning í landinu njóta þess að við höfum getað framleitt orku við lægra verði en ýmsar aðrar þjóðir. Nú á að taka þetta forskot frá almenningi og atvinnulífinu. Hugsunin er sem sagt sú að hækka orkuverðið þannig að eigandinn, ríkið í þessu tilviki, geti notið ávaxtanna af þessu öllu saman.

Ég gef ekki mikið fyrir þennan samanburð við sjávarútveginn. Sjávarútvegurinn hefur skilað mjög miklu inn í þjóðarbúið, m.a. í gegnum sterkt gengi í gegnum tíðina, en uppi eru áform um að leggja 9 milljarða skatta á þá atvinnugrein. Eru einhver áform uppi af hálfu hæstv. ráðherra um að leggja t.d. skatta sem svara 27% af framlegðinni á Landsvirkjun eða Orkuveitu Reykjavíkur til ráðstöfunar í ríkissjóði? Aðalatriðið er þetta: (Forseti hringir.) Greinilega er að fæðast skýr stefna, stefna um 100% hækkun orkuverðs að raungildi á Íslandi á næstu 20 árum. (Forseti hringir.) Það eru mikil tíðindi.