140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

markaðsverkefnið „Ísland – allt árið“.

437. mál
[18:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður setur fram þrjár meginspurningar. Sú fyrsta er: Hvernig er markaðsverkefnið Ísland – allt árið hugsað og hver eru markmið þess og tímarammi? Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir þessar spurningar og vil segja fyrst að ég hef mikla trú á þessu framtaki og tel að það hafi þegar haft víðtæk og eflandi áhrif á þróun ferðaþjónustu í landinu.

Ríkisstjórnin samþykkti í tengslum við almenna kjarasamninga 5. maí 2011 yfirlýsingu um árlegt framlag til að efla vetrarferðaþjónustu með fyrirvara um samþykki Alþingis enda kæmi sambærilegt mótframlag frá hagsmunaaðilum. Ísland – allt árið er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins, Icelandair, Reykjavíkurborgar, Samtaka ferðaþjónustunnar, Isavia, Iceland Express, Samtaka verslunar og þjónustu og Landsbankans. Yfir því er sérstök stjórn samstarfsaðila en Íslandsstofa sér um framkvæmd þess og ríflega 130 fyrirtæki og markaðsstofur landshluta leggja þegar fé til verkefnisins.

Verkefnið hefur það markmið að fjölga ferðamönnum utan háannatíma um 12% á ári og hefja þannig þróun sem miðar að því að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna. Markmiðið er einnig að fjölga heilsársstörfum í ferðaþjónustu um land allt og auka arðsemi af greininni með bættri nýtingu fastafjármuna. Þá er að því stefnt að auka verslun erlendra ferðamanna þannig að endurgreiðsla virðisaukaskattsins til ferðamanna utan háanna aukist úr 560 millj. kr. í 800 millj. kr. á tímabilinu. Ísland allt árið byggir á þeirri fjárfestingu sem lögð var í markaðsátakið Inspired by Iceland og er áfram unnið með það vörumerki. Það beinist fyrst og fremst að því að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar árið um kring með auglýsingum, kynningum og umræðu og samfélagsmiðlum á markaðssvæðum sem eru í tengslum við beint flug til Íslands allt árið. Um leið verður leitast við að virkja almenning á Íslandi til þátttöku í verkefninu. Samhliða markaðsverkefninu hafa samstarfsaðilar í því beitt sér fyrir fjölþættri stefnumótun, þróunarvinnu og ákvörðunum sem styðja við markmið átaksins. Meðal annars er horft til úrvinnslu og niðurstaðna úr verkefninu Vetrarferðaþjónusta sem unnið var sumarið 2011 af hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu auk ráðuneytis ferðamála. Ísland – allt árið hefur því orðið að yfirheiti á víðtæku umbreytingaferli sem leggur grunn að ferðaþjónustu sem heilsársatvinnugrein.

Hv. þingmaður spurði einnig: Hve miklir fjármunir eru settir í verkefnið og hverjir fá þá? Miðað er við að ríkið og samstarfsaðilar leggi sameiginlega 600 millj. kr. árlega til verkefnisins í þrjá vetur. Áhersla er lögð á að auglýsa og kynna Ísland sem áfangastað allt árið á markaðssvæðum sem tengjast beinu flugi til Íslands allan ársins hring. Verkefninu er beint sérstaklega að neytendamarkaði og ráðstefnu- og fundamarkaði. Fjármunum er varið í samræmi við verk- og framkvæmdaáætlun sem samþykkt var af samstarfsaðilanum.

Miðað við reynsluna af 200 millj. kr. haustátaki sem lauk fyrir síðustu áramót skiptist það í stórum dráttum þannig að 60% af verkefnafénu var varið til birtinga á auglýsingum og kynningarefni í hefðbundnum miðlum og samfélagsmiðlum á markaðssvæðum erlendis. Um 10% í umræðu á samfélagsmiðlum, 10% í hönnun og framleiðslu og umsýslu, meðal annars með heimsóknum og síðustu 10% var varið í almannatengsl, samskipti við erlenda fjölmiðla, m.a. heimsóknir erlendra blaðamanna í tengslum við viðburði á Íslandi, til gerðar heimildarmyndar og fleira. Ísland – allt árið úthlutar ekki styrkjum en er í samstarfi við ýmsa aðila í samræmi við samþykkta framkvæmda- og verkefnisáætlun.

Hvernig verður árangur af verkefninu mældur? Nú veit ég ekki, hæstv. forseti, hvort ég hef tíma til að fara yfir það svar en ég bæti þá bara við á eftir. Eins og fram kemur í könnun Ferðamálastofu meðal ferðamanna sumarið 2011 ræðir umfjöllun í fjölmiðlum og á netinu og ábendingar frá vinum og kunningjum miklu um val á Íslandi sem áfangastað. Ísland – allt árið beinist að verulegu leyti að því að laða fólk að völdum markaðssvæðum, að vefsíðunni Inspired by Iceland, stuðla að umræðu um Ísland sem áfangastað á samfélagsmiðlum og koma á framfæri sögum ferðamanna sem heimsótt hafa Ísland enda eru þeir langflestir ánægðir með dvölina og hafa frá mörgu að segja. Ég kem betur inn á þessa spurningu á eftir.