140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

markaðsverkefnið „Ísland – allt árið“.

437. mál
[18:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessa athyglisverðu spurningu sem og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þess má geta að í atvinnutillögum Framsóknarflokksins fjölluðum við ítarlega um hvernig mætti auka veg og vanda ferðaþjónustunnar hér á landi. Þar lögðum við til tilteknar aðgerðir um sérstakt átak þar sem ferðaþjónustan yrði auglýst sérstaklega utan háannatímans.

Þá komum við að því sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti réttilega á áðan, að það er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera. Eins og hv. þingmaður benti á er verið að draga stórlega úr þjónustu yfir vetrarmánuðina þegar kemur að vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Einnig var bent á það áðan að það ástand mun væntanlega ekki batna ef fram heldur sem horfir með stighækkandi eldsneytisverði. Enn og aftur sýnir það sig að há gjaldtaka þegar kemur að eldsneytisverði í landinu (Forseti hringir.) bitnar á atvinnulífinu og heimilum landsins.