140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

framhaldsskólastig á Vopnafirði.

481. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Á fundi sem við Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, héldum á Vopnafirði kom fram mjög einbeittur vilji heimamanna um að við reyndum að hreyfa við því máli að koma af stað framhaldsskólastigi á Vopnafirði þannig að a.m.k. ungt fólk gæti stundað nám þar til 18 ára aldurs. Eins og staðan er í dag hefur ungt fólk þurft að sækja sitt framhaldsskólanám um langan veg til Akureyrar eða upp á Hérað eða á Norðfjörð og eftir atvikum kannski á fleiri staði. Það segir sig sjálft að ungt fólk er mjög ólíkt í þroska og ég held að við hæstv. ráðherra getum verið sammála um að það er örugglega ekki allt undir það búið að vera fjarri heimahögum á þessum aldri. Nærtækt er að nefna í þessu samhengi að sjálfræðisaldurinn í dag er 18 ár.

Ég hefði talið það tilheyra grundvallarmannréttindum barna á Vopnafirði að þau geti stundað nám í sinni heimabyggð. Í nágrannasveitarfélaginu á Þórshöfn hefur verið rekin framhaldsdeild um nokkurt skeið í samvinnu við Framhaldsskólann á Laugum með mjög góðum árangri og þar hefur aðsóknin verið mjög góð. Við horfum líka á slíkt verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég tel því einboðið og fyllilega mikil rök fyrir því að veita eigi ungu fólki á Vopnafirði tækifæri til þess að stunda framhaldsnám í heimabyggð. Að auki er það trúlega svo að uppsöfnuð þörf er fyrir hendi hjá eldra fólki í samfélaginu þannig að ég er í engum vafa um að slíkt framhaldsskólastig gæti orðið blómlegt. Þarna er fyrirmyndaraðstaða, til að mynda í Kaupvangi, gamla Kaupfélagshúsinu á Vopnafirði, þar sem öll aðstaða er fyrir hendi.

Ég vil í ljósi þess að mikill vilji kom fram á þeim fundi sem við héldum á Vopnafirði í kjördæmavikunni, auk þess sem við höfum jafnframt heyrt Vopnfirðinga í gegnum fréttastofu RÚV fara þess á leit að framhaldsskólastigi verði komið á fót í firðinum, inna hæstv. menntamálaráðherra eftir því hvort hún sé reiðubúin til þess í samvinnu við heimamenn, komi erindi þar um, að skoða þau mál með jákvæðum hætti vegna þess að ég tel eins og ég sagði áðan að þetta mál heyri til grundvallarmannréttinda.