140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

framhaldsskólastig á Vopnafirði.

481. mál
[18:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Til að skýra mál hef ég einnig heyrt af málinu í fréttum Ríkisútvarpsins, en síðast þegar ég gáði hafði ráðuneytinu ekki borist formleg beiðni frá Vopnafirði um að námi á framhaldsskólastigi yrði komið þar á fót en berist slíkt erindi tökum við það að sjálfsögðu til skoðunar. Það höfum við gert áður með ólíkum sveitarfélögum og þá þarf auðvitað að meta ýmsa þætti.

Fyrst er þar að nefna að framhaldsdeildir eru í eðli sínu hagkvæmari kostur, ef horft er á það út frá fjármálum ríkisins, en sjálfstæðir framhaldsskólar ef staðirnir eru ekki svo stórir að þeir beri sjálfstæða framhaldsskóla. Skoða þarf hvert mögulegt námsframboð gæti verið, hver væri fagleg uppbygging námsins, við hvaða framhaldsskóla slík deild ætti að vera og ætti hann að vera innan Austurlands eða væri fólk að horfa til annarra landshluta út frá þjónustu við nemendur. Svo þyrfti auðvitað að kanna viðhorf nemenda og foreldra þeirra til framhaldsskóladeilda.

Ég ætla að greina frá því hér að ráðuneytið hefur nýlega hafið slíka skoðun bæði á Hólmavík og Hvammstanga í samvinnu við sveitarfélögin þar og Alþingi veitti á fjárlögum þessa árs fjárframlag til síðarnefnda sveitarfélagsins til að stofna þar framhaldsskóladeild.

Ég get að sjálfsögðu tekið undir með hv. þingmanni að það eru svo sannarlega ekki allir í stakk búnir til að flytjast að heiman og fara á heimavist 16 ára og það sé mjög mikilvægt fyrir hverja byggð að ungt fólk þurfi ekki að flytjast þaðan búferlum til að hefja framhaldsskólanám. Við höfum jákvæða reynslu af framhaldsskóladeildum á Patreksfirði og Þórshöfn sem hv. þingmaður vísaði til í ræðu sinni, þ.e. fólk á staðnum, bæði nemendur, foreldrar og íbúar, hefur verið mjög ánægt með útkomuna úr því. Bæði þessi verkefni voru á sínum tíma hugsuð sem tilraunaverkefni og ég held að það sé mikilvægt að nýta reynsluna af þeim fyrir framhaldið.

Það verður hins vegar að meta raunsætt hverjir eru annars vegar kostir og hins vegar gallar. Á þessum stöðum er það sem við getum kallað sambland af fjarkennslu og staðbundinni þjónustu sem opnar möguleika fyrir framhaldsskólanám á fámennum svæðum en slíkri uppbyggingu eru auðvitað ákveðin takmörk sett til dæmis hvað varðar verknám.

Það sem ég sé fyrir mér í þessu er að í þessum deildum hafa nemendur verið að taka kannski fyrstu tvö árin í framhaldsskóla og fara svo jafnvel í þann skóla sem deildin er út frá og ljúka þar námi og fá þá fjölbreyttara námsframboð, því að það er alltaf hætta á að námsframboðið einskorðist við grunninn. En það getur verið gott ef samkomulag er um það og nemendur vita að hverju þeir ganga í þeim efnum. Þessar deildir hafa verið reknar með þeim formerkjum að nemendur fari í eina viku í heimaskólann, getum við sagt, upplifi þar félagslíf og kynnist stærra skólasamfélagi og séu þá reiðubúnir til að taka skrefið alla leið síðar.

Hins vegar vil ég segja að eins jákvætt og þetta er þá hefur niðurskurður á fjárframlögum til framhaldsskóla auðvitað bitnað verulega á starfi þeirra og þó að Alþingi hafi veitt sérstakt fjármagn til framhaldsskóladeilda á landsbyggðinni dugir það stundum ekki til og það bil sem eftir stendur verður ekki brúað nema með því að skerða í raun og veru aðra framhaldsskólastarfsemi. Það skiptir því máli ef við göngum inn í þessi verkefni að við kostnaðargreinum þau og höfum augun opin fyrir því hvað þau kosta í raun.

Ég ætla líka að nefna aðeins að auðvitað hangir þetta líka á því hvað sveitarfélögin eru reiðubúin að leggja til og þá nefni ég sérstaklega aðstöðuna því að þar hafa þau ákveðnum skyldum að gegna. Ég spyr sérstaklega og ætlast kannski ekki til að hv. fyrirspyrjandi svari því endanlega en ég velti þeirri spurningu upp hvort ekki væri spennandi í þessu tilfelli að horfa á Austurland sem eitt sóknarsvæði út frá þeirri sóknaráætlun sem hefur verið mótuð fyrir landshluta, horfa á hugsanlega framhaldsskóladeild á Vopnafirði sem hluta af því framhaldsskólastarfi sem er fyrir, sem eru þá Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskólinn á Austurlandi og hvort hugsanlega mætti jafnvel efla samstarf þessara skóla um að standa að einhverri slíkri deild. Ég held að það væri mjög spennandi verkefni að skoða hugsanlega framhaldsskóladeild með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi, að horft væri á landsvæðið sem eitt svæði.

Ég vil að lokum segja að ég held að mikilvægt sé að við horfum á þetta út frá heildarmyndinni og ég vinn að því núna að undirbúa í raun skoðun á landinu öllu. Ég held að það sé líka mikilvægt að við tökum ekki ákvarðanir tilviljanakennt, heldur vegum og metum hvaða staðir koma til greina sem vænlegir staðir fyrir framhaldsskóladeildir. Ég undirbý nú það að greina landið út frá þörfinni, fjarlægðum frá skólum, samgöngum (Forseti hringir.) og öðru slíku. Það er líka mikilvægt að við höfum það heildarsamhengi (Forseti hringir.) áður en við höldum áfram á þessari braut sem ég er annars sammála hv. þingmanni um að er jákvæð.