140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

framhaldsskólastig á Vopnafirði.

481. mál
[18:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir hennar ágætu svör sem og hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir hennar áhugaverða innlegg þegar kemur að þessum mikilvægu málum.

Ég tel að við þurfum að skoða þessi mál heildstætt eins og nálgun hæstv. ráðherra er að þessu máli. Ég tel það koma vel til greina að samstarf á Austurlandi eigi sér stað þegar kemur að þessari uppbyggingu. Ég veit reyndar til þess að Vopnfirðingar hafa líka horft til annarra átta, en ef vel til tekst með gott samstarf á milli ráðuneytisins og heimamanna er ég alveg viss um að góð lausn muni finnast á þessum málum eins og hæstv. ráðherra fór svo ágætlega yfir svari í sínu. Ég hef áður sagt hér að það er mjög erfitt að rífast við hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að hún kemur mjög lausnamiðað að öllum málum. Ég man eiginlega ekki eftir því að verulega hafi hvesst hér í þingsal þegar ég hef borið fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra þó að það hafi oft verið út af erfiðum málum.

Þá finnst mér mikilvægt að við nálgumst þetta úr frá grundvallarmannréttindum. Börn eru börn fram að 18 ára aldri og ég tel að það að þurfa að flytja börn til mennta norður á Akureyri, upp á Hérað eða til Neskaupstaðar sé í raun og veru brot á ákveðnum grundvallarmannréttindum á 21. öld. Að sjálfsögðu þótti þetta kannski nokkuð eðlilegt fyrir 50–60 árum en tíðarandinn nú er með allt öðrum hætti. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra mundi hnykkja á því í seinna svari sínu að berist erindi frá Vopnafjarðarhreppi verði vel tekið í það mál af hálfu ráðuneytisins. Að sama skapi tek ég undir með hæstv. ráðherra að nauðsynlegt er að einhver þarfagreining eigi sér stað vítt og breitt um (Forseti hringir.) landið þegar kemur að þessu mikilvæga máli.