140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þátttaka í Eurovision-söngvakeppninni í Aserbaídsjan.

516. mál
[18:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Mannréttindi skipta okkur öll miklu máli. Okkur sem búum við grundvallarmannréttindi hættir til að þykja þau svo sjálfsögð að við leiðum ekki hugann að því hvaða aðstæður eru búnar milljónum manna um allan heim í þessu efni. En það er einmitt mikilvægt að við höldum vöku okkar og tölum ávallt máli mannréttinda og réttlætis hvar sem er og hvenær sem er. Talsverð umræða hefur að undanförnu sprottið vegna meintra mannréttindabrota stjórnvalda í Aserbaídsjan við undirbúning söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem haldin verður í Bakú nú í vor. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa beint sjónum sínum að Bakú og greint frá því að fólk hafi verið borið út úr húsum sínum til að rífa þau og rýma fyrir kristalshöllinni þar sem söngvakeppnin mun fara fram. Er í því sambandi talað um ólögmætan útburð og þjóðnýtingu á íbúðarhúsnæði. Með því móti er brotið á réttindum borgaranna í því augnamiði að halda umrædda söngvakeppni. Það er því bein tenging á milli þessa menningarviðburðar annars vegar og mannréttindabrotanna hins vegar.

Í umræðunni um mannréttindi og hvernig best sé að berjast fyrir þeim og standa vörð um þau steytum við iðulega á þeirri spurningu hvort blanda eigi saman stöðu mannréttindamála í tilteknu landi og síðan öðrum þáttum eins og viðskiptum eða menningu. Það er að sjálfsögðu álitamál og stundum getur það einmitt verið liður í að bæta stöðu mannréttindamála að eiga mikil samskipti við ríki sem brjóta mannréttindi

Viðskiptaþvinganir sem alþjóðasamfélagið beitti Suður-Afríku á sínum tíma voru liður í að brjóta niður kynþáttaaðskilnaðarstefnuna þar í landi sem tókst að lokum. Þá eru dæmi um að íþróttaviðburðir eins og til dæmis Ólympíuleikar hafi verið sniðgengnir til að þrýsta á um umbætur í mannréttindamálum.

Hvað varðar það tilvik sem hér um ræðir er rétt að geta þess að stjórnvöld í Aserbaídsjan hafa lengi sætt gagnrýni á fjölþjóðlegum vettvangi og af hálfu mannúðarsamtaka fyrir ítrekuð mannréttindabrot. Það er ekki nýtt af nálinni og ekki eitthvað sem fyrst verður vart við í tengslum við Eurovision. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að þetta tvennt tengist beint, þ.e. aðgerðir stjórnvalda til undirbúnings keppninni fela beinlínis í sér brot á mannréttindum almennra borgara. Af þeim sökum hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um viðbrögð Íslands og er hún í þremur liðum:

1. Hefur ráðherra kynnt sér stöðu mannréttindamála í Aserbaídsjan, m.a. við undirbúning Eurovision-söngvakeppninnar þar í landi?

2. Telur ráðherra koma til álita að Ísland sniðgangi keppnina og taki þannig undir gagnrýni mannréttindasamtaka og hvetji aðra til að gera slíkt hið sama?

3. Telur ráðherra að unnt sé að nýta söngvakeppnina til að stuðla að framförum í mannréttindamálum í landinu?

Ég geri mér mætavel grein fyrir því að ekki er til eitt rétt svar í máli af þessum toga, á því eru margar hliðar. Ég vonast þó til að umræða skapist um málið sem vonandi beinir kastljósinu að stöðu mála í Aserbaídsjan og hlutskipti almennra borgara þar, bæði nú og til framtíðar.