140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þátttaka í Eurovision-söngvakeppninni í Aserbaídsjan.

516. mál
[18:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þessa fyrirspurn. Því er til að svara að ég hef lítillega kynnt mér ástand mannréttindamála í Aserbaídsjan. Alþjóðleg mannréttindasamtök eins og Amnesty International og Human Rights Watch hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mannréttindamála þar í landi og því að hún fari versnandi. Bent hefur verið á að stjórnvöld þar í landi hafi til að mynda beitt sér hart gegn öllum tilraunum til opinberra mótmæla, og andófsmenn hafi verið fangelsaðir á grundvelli ákæra sem eigi sér pólitískar rætur. Í ársskýrslu Human Rights Watch frá árinu 2011 er fullyrt að lögreglan í landinu hafi viðhaft pyndingar og vonda meðferð á föngum. Amnesty International hefur líka lýst yfir áhyggjum af þessu. Hvað varðar niðurrif húsa til að byggja nýja höll undir söngvakeppnina hefur líka verið bent á það, sérstaklega í skýrslu Human Rights Watch.

Í raun má segja að Evrópusöngvakeppnin veki athygli á ástandi mannréttinda í landinu öllu. Ég held að ástæða sé til að skoða það. Ég vil líka nefna að mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins lýsti sérstökum áhyggjum í september 2011 um ástand mála í Aserbaídsjan og taldi að málfrelsi, félagafrelsi og frelsi til friðsamlegs fundahalds væri á undanhaldi í landinu.

Ég tel mig því hafa kynnt mér stöðu mannréttindamála þar. Þegar kemur hins vegar að því að Ísland sniðgangi keppnina er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, það er ekki einföld spurning. Sérstaklega vil ég nefna að við eigum nokkur dæmi, kannski ekki sambærileg en sem hafa vakið upp svipaðar spurningar. Til að mynda tók Ísland árið 1998 þátt í Evrópusöngvakeppninni sem þá fór fram í Ísrael þrátt fyrir mannréttindabrot Ísraelsríkis gegn Palestínumönnum. Árið 2004 tókum við þátt í söngvakeppni sem fram fór í Tyrklandi, og 2009 í Rússlandi þrátt fyrir að frammistaða þessara tveggja ríkja í mannréttindamálum hafi ekki alltaf verið til fyrirmyndar að mati mannréttindasamtaka. Það kom líka til umræðu, meðal annars í þessum sal, hvort Íslendingar ættu að sniðganga Ólympíuleikana sem haldnir voru í Beijing 2008, vegna mannréttindabrota kínverskra stjórnvalda. Mér finnst ástæða til að benda á að í því tilfelli lít ég svo á að ákvörðunin hafi ekki snúist um þátttöku íslenskra stjórnvalda heldur var ákvörðunin í höndum Íþrótta- og Ólympíusambandsins sem eru frjáls félagasamtök. Á sama hátt er ákvörðunin í þessu tilfelli á höndum Ríkisútvarpsins, þetta er söngvakeppni sjónvarpsstöðva, ekki landanna. Ég tel mjög mikilvægt, og ég segi það hér, að sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé virt í þessu máli. Hins vegar kannaði ég hver áform þess væru og fékk þær upplýsingar að útvarpsstjóri mundi taka málið upp á fundi forstöðumanna almannaþjónustu fjölmiðla Norðurlanda sem fer fram í þessari viku.

Ég tel að sjálfsögðu eðlilegt að Ríkisútvarpið beiti sér fyrir því að mannréttindi séu virt í öllu því sem tengist starfi almannaþjónustu fjölmiðla og þar með talið Evrópusöngvakeppninnar, þ.e. að það séu ákveðin skilyrði eða kríteríur getum við sagt, sem séu uppfyllt á þessum vettvangi. En ég held líka að mikilvægt sé að muna að við viljum eiga sjálfstætt almannaútvarp og mikilvægt er að það taki þessa ákvörðun.

Að þessu sögðu vil ég segja að kannski væri ástæða til að taka þessi mál til umræðu hjá þeim sem láta sig utanríkisstjórnmál Íslendinga varða. Það er formaður hv. utanríkismálanefndar sem beinir þessari spurningu til mín. Ég sem mennta- og menningarmálaráðherra er kannski ekki rétti fulltrúi íslenskra stjórnvalda til að taka ákvarðanir á þessu sviði, hvort sem um er að ræða þátttöku í menningarviðburðum, íþróttaviðburðum eða öðru því sem heyrir undir mig, heldur tel ég að þetta sé mun breiðari umræða sem þurfi að taka á sviði utanríkisstjórnmála. Þar er auðvitað heldur ekkert eitt rétt svar. Ég vil nefna að fyrr í þessum mánuði sendi Amnesty International frá sér áskorun til stjórnvalda í Aserbaídsjan um að gangast við mannréttindabrotum sínum í aðdraganda söngvakeppninnar og láta úr haldi 16 samviskufanga sem hafa verið í haldi frá því í apríl 2011 fyrir að taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum. Talsmaður samtakanna hefur hvatt aðstandendur söngvakeppninnar til að sýna sjónvarpsáhorfendum í Evrópu og um heim allan hvað er að gerast í landinu fyrir utan tónleikahöllina og lyfta þannig hulunni af mannréttindabrotum í landinu. Framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi hefur sagt að Íslendingar eigi að taka þátt í keppninni og nýta tækifærið til að mótmæla mannréttindabrotum. Það kann að vera réttari leið en að sniðganga keppnina, eins og hv. þingmaður spyr um í fyrirspurn sinni. Kannski getur þátttaka stuðlað að því að vekja athygli á mannréttindabrotum og jafnvel leitt til þess að á þeim verði tekið. Ég held að það gæti jafnvel verið betri leið, (Forseti hringir.) að minnsta kosti miðað við orð þeirra sem hafa tjáð sig fyrir hönd alþjóðlegra mannréttindasamtaka, (Forseti hringir.) til að ná árangri í þeim efnum.