140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þátttaka í Eurovision-söngvakeppninni í Aserbaídsjan.

516. mál
[18:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost, líkt og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, að fara til Bakú í Aserbaídsjan í tilefni 20 ára sjálfstæðisafmælis landsins. Að vissu leyti má segja að nákvæmlega sama umræða hafi farið fram áður en ákvörðun var tekin um að fara, hvort réttlætanlegt væri að þiggja boðið til landsins. Ég veit að sú umræða fór líka fram innan Evrópuráðsþingsins á sínum tíma vegna þess að fjölda þingmanna sem höfðu haft sæti á Evrópuráðsþinginu var boðið. Það var mat mjög margra þingmanna að fara þangað frekar en að gera það ekki; kynna sér aðstæður, fá að heyra hvað væri í gangi og afla sér um leið upplýsinga um hvers konar land Aserbaídsjan væri. Ég skal viðurkenna að ég þurfti nú að leita að því á kortinu þegar þetta boð barst.

Ég er mikill aðdáandi Eurovision en ég ætla hins vegar að halda því frá einmitt þessari ákvörðun. Ég tek undir þá ábendingu hæstv. menntamálaráðherra að mjög brýnt sé að taka þetta mál upp (Forseti hringir.) á vettvangi utanríkismálanefndar og í eins víðum skilningi og við getum. Á hverjum degi eru að mínu mati framin (Forseti hringir.) mannréttindabrot til dæmis hjá vinaþjóð okkar, Bandaríkjunum, og eitt af því sem við þurfum að horfa heildstætt á er hvernig við viljum beita okkur (Forseti hringir.) í slíkum málum.