140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

opinn aðgangur að afrakstri fræðistarfa.

534. mál
[19:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Netið er að breyta heiminum og í kjölfar netvæðingarinnar hafa komið kröfur og í raun og veru ákveðin hugmyndafræði um opinn aðgang að fræðigreinum einkum og öðrum afrakstri fræðilegrar vinnu. Þessi stefna, getum við sagt, á auðvitað óvenjulega vel við þegar svo háttar til að þessi fræðistörf eru kostuð af almannafé. Hæstv. forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra hafa lýst stuðningi við þessa stefnu og þess vegna er hér spurt um árangur hennar, einkum hjá Rannsóknamiðstöð Íslands sem ég kýs að kalla því nafni, þar sem menn hafa lýst því yfir að þeir vilji gera þetta en ekki hefur sést neitt svart á hvítu um það að stofnunin geri þessar kröfur til þeirra fræðistarfa sem þar eru styrkt eða búi í haginn fyrir að það geti gerst.

Nú geri ég mér grein fyrir því að þetta er ekki einfalt, þessi orkuskipti eru ekki einföld og verða auðvitað aldrei framkvæmd að fullu. Í fyrsta lagi eru kostendur fræðistarfa iðulega fleiri en opinberir sjóðir og þá verður að ná jafnvægi á milli þeirra krafna sem gerðar eru. Í öðru lagi er stundum um það að ræða að menn safna í einhvern sarp og í þriðja lagi getur verið um einhvers konar einkaleyfi að ræða eða patent og þá finnst mér reyndar að utanumhaldarar opinbers fjár verði að staldra við og kannast við þær hugleiðingar úr eigin störfum í Orkusjóði þar sem við höfum þurft að velta því fyrir okkur.

Spurningin til ráðherrans er í stuttu máli um það hvað líði stefnumótun Rannsóknamiðstöðvarinnar um opinn aðgang í ljósi yfirlýsinga forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra og hvenær þessar niðurstöður verði aðgengilegar á netinu almenningi að kostnaðarlausu.