140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

opinn aðgangur að afrakstri fræðistarfa.

534. mál
[19:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég er ekki hissa á að hv. þingmaður hafi orðið sveittur því að ég varð eiginlega sveitt sjálf við að fara yfir þetta flókna mál á fimm mínútum.

Til að hnykkja á örfáum atriðum þá nefndi ég einmitt Háskólann á Bifröst. Hann hefur verið ákveðinn frumkvöðull á því sviði að móta sér stefnu um opið aðgengi og aðrir skólar hafa fylgt í kjölfarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Eitt af því sem kemur í veg fyrir að fólk dembi sér út í þetta er kostnaður því að mjög mörg alþjóðleg vísindatímarit sem teljast ritrýnd hafa ekki viljað ganga þessa leið og þar af sprettur sá kostnaður sem ég nefndi í fyrra svari mínu, sem vísindamennirnir verða þá að bera sjálfir ef þeir vilja fá birt í opnu aðgengi. Það er kannski eitt af því sem hefur verið hamlandi þó að, eftir því sem mér skilst, helstu fræðimenn erlendis sem hafa um þessi mál fjallað segi allt eins góðar líkur á því að vísindatímaritin kæmu jafnvel betur út með því að birta greinar sínar í opnu aðgengi, þ.e. selja þær ekki heldur birta í opnu aðgengi, og öðlast þar með aukna útbreiðslu og afla sér tekna með öðrum hætti. Þetta er atriði sem ég held að sé mikilvægt og eitt af því sem hefur verið ákveðinn ljár í þúfu.

Það sem ég vil hins vegar segja er að sú stefnumótun sem Vísinda- og tækniráð samþykkti gildir frá 2010 til 2012. Ég lít svo á að stefnumótun af hálfu Rannsóknamiðstöðvar hljóti þá að liggja fyrir einhvern tíma á árinu 2012. Ég á von á því. Þar með verður væntanlega tekið tillit til þessa í öllum þeim samningum sem verða gerðir við þá sem fá styrki úr sjóðnum. Við skulum vona að þessi tímaáætlun gangi eftir.