140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun á notkun tauga- og geðlyfja meðal barna.

435. mál
[19:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í skriflegri fyrirspurn minni til velferðarráðherra um þróun útgjalda vegna tauga- og geðlyfja kom fram að kostnaður vegna þessara lyfja til barna hefði vaxið mikið á síðustu árum. Hlutfallslegur kostnaður sjúkratrygginga vegna geð- og taugalyfja á árinu 2003 var 2,5% vegna barna að 10 ára aldri og 7,2% vegna barna á aldrinum 10–19 ára. Árið 2010 var hlutfallið komið í 3,6% fyrir yngsta aldurshópinn og 11,9% fyrir börn 10 ára og eldri. Þeir lyfjaflokkar sem jukust mest á þessu tímabili voru örvandi lyf, lyf notuð við ADHD, ofvirkni og athyglisbresti, og lyf sem efla heilastarfsemi, geðrofslyf og flogaveikilyf.

Í rannsókn sem Helga Zoëga, Matthías Halldórsson og fleiri unnu um notkun ADHD-lyfja á Norðurlöndunum árið 2007 kom fram að Íslendingar væru nær fimm sinnum líklegri en Svíar til að nota þessa tegund af lyfjum. Meðalnotkun á Norðurlöndum var 2,76 á hverja þúsund íbúa á meðan hún var 12,46 á hverja þúsund íbúa á Íslandi. Það sem var líka einkar áhugavert í þeirri rannsókn var að drengir á aldrinum 7–15 ára voru fjórfalt líklegri en stúlkur til að vera á þessum lyfjum en mismunur milli kynjanna minnkaði með aldrinum.

Í rannsóknum sem unnar hafa verið um árangur af notkun þessara lyfja hafa komið fram mjög misvísandi upplýsingar. Hvað varðar langtímaárangur virðist vera mjög óskýrt hvort það sé raunverulegur árangur af notkun þeirra en skammtímaárangur hefur vissulega verið staðfestur.

Notkun íslenskra barna á geð- og taugalyfjum líkist mjög notkun bandarískra barna en sker sig áberandi frá notkun evrópskra barna. Í grein sem birtist í mars 2010 skrifaði Allen Frances, formaður bandaríska starfshópsins sem vann fjórða greiningarlykilinn fyrir geðraskanir, að minni háttar breytingar á lyklinum hafi leitt til faraldurs í ofvirkni og athyglisbresti, einhverfu og geðhvarfasýki barna í landinu frá 1994.

Við viljum öll börnunum okkar vel. Ef lyf hjálpa tel ég að við eigum ekki að setja fyrir okkur aukna notkun og hærri kostnað. En er það raunverulega svo? Er ekki kominn tími til þess að við spyrjum okkur erfiðra spurninga um notkun geð- og taugalyfja meðal barna? Af hverju eru drengir margfalt líklegri til að verða greindir með athyglisbrest en stúlkur? Af hverju er þessi gífurlegi munur á okkur og Norðurlöndunum í lyfjanotkun þegar um er að ræða tiltölulega lík samfélög þegar litið er til uppruna, efnahagslegra, menningarlegra og félagslegra þátta? Og eru lyfin að skila raunverulegum árangri?

Hver er skoðun ráðherrans á þessum staðreyndum varðandi þróun á notkun tauga- og geðlyfja meðal barna og hyggst hann bregðast við því á einhvern máta? Af hverju hefur notkunin aukist svona mikið og af hverju hefur aukin notkun ekki leitt til betri árangurs?