140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun á notkun tauga- og geðlyfja meðal barna.

435. mál
[19:30]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum áfram um geðverndarmálin. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur beint þeirri spurningu til mín hvaða skoðun ég hafi á þróun á notkun tauga- og geðlyfja meðal barna, samanber svar sem undirritaður sendi skriflega inn til þingsins á þskj. 585. Spurning hv. þm. Eyglóar Harðardóttur kemur í framhaldi af skriflegri fyrirspurn, eins og ég sagði.

Það er auðvitað mikilvægt að skoða, eins og hér kom fram, hvaða lyf við erum að nota, af hverju, af hverju erum við að nota þau í meira magni, og líka að skoða þetta út frá þeim kostnaði sem því fylgir. Og er einhver árangur af þessu?

Til að skoða þróun notkunar þarf að skoða breytingar í magni milli tímabila og þá er það gert út frá svokölluðum skilgreindum dagskömmtum eða „defined daily dosis“ eða DDD, eins og það er líka nefnt. Það er mikilvægt vegna þess að oft erum við að bera saman kostnað en þar skekkir gengið mjög mikið. Þetta er tölfræðieining sem er skilgreind af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og er notuð í samanburði í flestum löndum. Upplýsingar sem stuðst er við í þessu svari koma úr tölfræðigagnagrunni Sjúkratrygginga Íslands og byggja á afgreiddum lyfseðlum úr apótekum árin 2005–2011. Upplýsingar um skilgreinda dagskammta eru ekki eins áreiðanlegar fyrir eldri gögn.

Heildaraukning alls lyfjaflokksins er rúm 43%. Við erum því að tala um verulega aukningu á umræddu tímabili. Þegar sömu lyfjaflokkar og fram koma í fyrra svari mínu eru skoðaðir út frá skilgreindum dagskömmtum kemur í ljós að mikil aukning er í tveimur lyfjaflokkum og nokkur aukning er í öðrum tveimur lyfjaflokkum í aldurshópnum 0–17 ára en lítil breyting er þar fyrir utan. Umræddir lyfjaflokkar eru örvandi lyf, lyf notuð við ofvirkni og athyglisbresti, þ.e. ADHD, og lyf sem efla heilastarfsemi, þetta er sem sagt bein tilvitnun, og svo hins vegar svefnlyf, róandi lyf og geðrofslyf, og síðan róandi og kvíðastillandi lyf. Þetta eru þeir flokkar sem hafa aukist verulega.

Í lyfjaflokknum örvandi lyf, lyf notuð við ofvirkni og athyglisbresti og lyf sem efla heilastarfsemi er aukningin um 64% frá árinu 2005 til ársins 2011, en það eru ofvirknilyf sem standa eingöngu undir notkun í þeim lyfjaflokki. Notkun og aukning þessara lyfja á undanförnum árum, sérstaklega Methylphenidat, hefur verið meiri á Íslandi en í samanburðarlöndum okkar, eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Læknar og yfirvöld hafa verið meðvituð um þetta og hafa brugðist við með ýmsum hætti. Læknar hafa brugðist við með markvissari sjúkdómsgreiningum og yfirvöld til dæmis með auknu eftirliti með lyfjaávísunum lækna og hertum reglum um útgáfu lyfjaskírteina vegna þessara lyfja.

Endurskoðun klínískra leiðbeininga sem landlæknir gefur út um verklag við greiningu og meðferð á ofvirkni og athyglisbresti hjá börnum og fullorðnum eru nú á lokastigi, raunar er búið að taka það í notkun að hluta. Það er mat flestra fagaðila að greining og meðferð barna með ADHD sé í góðum farvegi og að notkun lyfjanna sé bylting fyrir líðan barna sem greinast með sjúkdóminn, en engu að síður þurfum við að ná miklu betur utan um þessi mál, sérstaklega gagnvart fullorðnum einstaklingum, það kemur þarna inn líka.

Í umræðunni um notkun þessara lyfja er mikilvægt að hafa í huga líðan barna og velgengni þeirra bæði í leik og starfi og má alls ekki blanda saman viðurkenndri lyfjanotkun vegna skilgreindra sjúkdómseinkenna og rangri lyfjanotkun eða neyslu vegna fíknar, eins og kom hér fram í umræðunni í fyrra.

Í lyfjaflokknum svefnlyf og róandi lyf er mikil aukning eða tíföldun á sama tímabili. Nauðsynlegt er að taka fram að notkun svefnlyfja og róandi lyfja fer úr því að vera innan við hálft prósent af heildarnotkun tauga- og geðlyfjaflokksins upp í 6,7% á síðasta ári. Þessi aukning helst í hendur við aukna notkun ofvirknilyfja því að svefntruflanir eru þekkt aukaverkun þeirra. Börn sem þurfa að nota þessi lyf eru undir eftirliti sérfræðinga sem bregðast við slíkum einkennum eftir því sem við á. Rétt er að taka fram að almennt er ekki mælt með notkun svefnlyfja fyrir börn því að oft hafa þau ávanahættu í för með sér. En börn eins og allir aðrir verða þó að sofa, þess vegna hefur verið nauðsynlegt að nota svefnlyf undir ákveðnum kringumstæðum.

Það er aðeins eitt lyf, Melatónín, sem stendur undir umræddri aukningu og um leið 96% af heildarnotkun svefnlyfja barna. Eftir að Melatónín fékk markaðsleyfi á Íslandi í nóvember 2007 dró úr notkun annarra hefðbundinna svefnlyfja. Melatónín er hormón sem framleitt er í heilanum og það gegnir hlutverki við stjórn á svefni og dægursveiflum. Það hefur einnig svæfandi áhrif og eykur svefnhneigð. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands er um að ræða 500–600 börn sem nota það lyf.

Í lyfjaflokknum geðrofslyf er um 30% aukning frá árinu 2005. Það er eitt lyf sem stendur undir nærri allri aukningunni en það kom á markað árið 2005. Það er notað við geðklofa og alvarlegu oflæti í geðhvarfasýki. Í lyfjaflokknum róandi og kvíðastillandi lyf er um 26% aukning frá árinu 2005. Þar eru tvö lyf sem standa undir aukningunni og bæði ætluð við kvíða, en annað er auk þess notað við kláða. (Forseti hringir.) Ekki liggur fyrir skýring á þessari aukningu.

Ég mun koma inn á aðra þætti í síðara svari.