140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun á notkun tauga- og geðlyfja meðal barna.

435. mál
[19:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það sem hæstv. ráðherra er í raun og veru að segja er að þær prósentutölur um aukninguna eru jafnvel mun meiri en maður hafði kannski gert sér grein fyrir áður, mun meiri, frá 20% og upp í, ég held að ráðherrann hafi talað 60% aukningu á þeim tímabilum sem ráðherrann fór í gegnum. Þess vegna held ég að það sé gífurlega brýnt að hæstv. velferðarráðherra taki þetta mál upp í ráðuneytinu og bregðist við á einhvern máta. Ef við sjáum þessa gífurlegu aukningu á umræddum lyfjum hlýtur maður að gera þá kröfu, vegna þess að við erum að tala um börn, við erum ekki að tala um fullorðna einstaklinga, við erum að tala um börn sem eru að vaxa og þroskast. Þegar ekki liggja fyrir skýrar rannsóknir um raunverulegan langtímaárangur af einhverjum af þessum lyfjum vitum við í raun og veru ekki hve áhrif langtímalyfjanotkunar verða af jafnvel mjög sterkum lyfjum, sem hafa hugsanlega einhverjar aukaverkanir sem við gerum okkur ekki grein fyrir, og þá hlýtur það að vera eitt af því sem velferðarráðherra setur í forgang.

Það sem ég vil einnig ítreka er að þegar ég kynnti mér þetta mál, sérstaklega hvað varðaði til dæmis athyglisbrest, var svo sláandi einmitt þessi munur á milli kynjanna. Til er rannsókn sem var unnin um ung börn sem bendir til að yngstu börnin í árgangi væru nær tvöfalt líklegri til að vera greind með ADHD en elstu börnin í næsta árgangi. Fæðingardagur barnsins virtist því hafa mikil áhrif á mat kennara á líkum þess að barn væri með athyglisbrest en lítil tengsl við mat foreldra, þannig að slæm hegðun barna í kennslustundum gæti aukið líkur á greiningu barna samkvæmt þessari rannsókn.

Ef lyfin virka eigum við að nota þau, en við þurfum líka að hafa það staðfest að þau séu raunverulega að virka, að þetta sé ekki faraldur eins og Allen Frances (Forseti hringir.) talaði um, sem byggir hugsanlega ekki á nógu góðum vísindum.