140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun á notkun tauga- og geðlyfja meðal barna.

435. mál
[19:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum sammála um að gríðarlega mikilvægt er að þessi lyf séu notuð rétt og greiningar séu réttar. Það er líka gríðarlega mikilvægt að við nýtum lyf þar sem þarf að nýta þau en pössum okkur á að ofnota þau ekki. Mikil umræða hefur orðið einmitt um þetta, bæði í ráðuneytinu og eins hjá landlækni, með hvaða hætti við nýtum þessi lyf, í hve miklu magni og hversu nytsamleg þau eru.

Það er einnig umhugsunarefni, ef maður segir það út frá sinni eigin reynslu, hversu fljót við erum að grípa til lyfja við lausnir á hlutum. Þá er ég að tala bara um skólakerfið og þá sem fylgjast með, að stundum verðum við að horfa til þess að kannski er sú umgjörð sem við búum börnum og sú aðstaða sem við erum að skapa á hverjum tíma ekki eins og hún ætti helst að vera. Veruleg umræða hefur verið um stráka og stelpur, hvort við erum að skapa skólaumhverfi sem hentar báðum kynjum og hvernig við skilgreinum þá vandann ef menn víkja frá normunum. Kannski ættum við oftar að líta til þess þegar einhver vandamál koma upp: Er umhverfið sem við sköpum í skólanum rétta umhverfið fyrir viðkomandi börn? Í staðinn fyrir að vera alltaf að tala um þau sem frávik varðandi einhver norm í skólanum.

Varðandi muninn gagnvart Norðurlöndunum verður að segjast eins og er, við skoðuðum það aðeins í fyrra, að gríðarleg aukning er á Norðurlöndunum líka. Það sama er að gerast þar, gerist bara örlítið seinna, hvað varðar mörg þessara lyfja, það fengum við að sjá meðal annars frá Danmörku, ég hef svo sem ekki fengið nýjustu tölurnar. En þetta kom okkur á óvart því að þeir eru langt á eftir okkur eftir sem áður hvað þetta varðar.

Ég tek undir að við þurfum auðvitað að standa þessa vakt og umræða þarf að eiga sér stað í öllum skólum landsins því að greiningarnar koma fyrst og fremst þaðan og er það yfirleitt alltaf greint þar sem foreldrar, læknar og fagfólkið sameiginlega greina viðfangsefnin, og auðvitað fylgjast menn með því hvernig lyfin virka. Og hægt er að segja frá mörgum kraftaverkum þar sem lyf hafa hjálpað krökkum að komast út úr ákveðnum vítahring og leyst málin. En það þýðir ekki að við þurfum ekki að standa vaktina með jákvæðum hætti, að lyfin séu notuð rétt og eigi aðeins við þá sem á þeim þurfa að halda.

Ég vil í lokin þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir spurningarnar og að vekja athygli á þessum málum og koma þeim inn í þingumræðuna því að málið er afar þarft og brýnt.