140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða starfsáætlun þingsins, óframkomin frumvörp ríkisstjórnarinnar, sem boðuð hafa verið, og fara yfir hversu langur tími er til stefnu til að ljúka mikilvægum málum eins og ríkisstjórnin hefur sagst ætla að gera. Það eru níu fundadagar eftir í mars, átta fundadagar í apríl og 13 fundadagar í maí þegar áætlað er að dagskránni ljúki.

Frú forseti. 31. mars er lokadagur til að koma fram með frumvörp eigi þau að ræðast á vorþingi, hvað þá að ljúka eigi umræðu. Hefðbundinn umsagnartími, umsagnarferlið, er að jafnaði tvær til þrjár vikur.

Virðulegur forseti. Eins og hæstv. forseta er mikilvægt að starfsáætlun þingsins gangi eftir, og sá tími sé virtur sem áætlaður er í nefnda- og fundastörf, blasir við dáðleysi og verkleysi ríkisstjórnarinnar. Þau frumvörp sem hún þó hefur boðað að afgreiða eigi á þessu vorþingi liggja ekki fyrir og eru ekki sýnileg.

Mig langar því að spyrja þingflokksformenn stjórnarflokkanna, hv. þm. Magnús Orra Schram og hv. þm. Björn Val Gíslason: Vita þeir eitthvað meira um framgang þeirra mála sem ekki eru komin fram? Vita þeir hvenær hæstv. ríkisstjórn hyggst leggja þessi frumvörp fram?

Þingið þarf að geta viðhaft vönduð vinnubrögð, það þarf að tryggja að tími gefist til að afgreiða lög sem ekki verða rekin ofan í okkur aftur af Hæstarétti. Tíminn sem nýttur er til lagasetningar og umræðna er oftar en ekki of skammur.