140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get upplýst það að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur afgreitt öll þau mál sem komið hafa frá ríkisstjórninni til þingflokksins inn til þingsins. Ég vænti þess að þau mál fari að koma hingað inn, þau sem ekki eru þegar komin. Ég get ekki svarað því hvenær ráðherrar munu leggja fram sín mál. Ég hvet hv. fyrirspyrjanda til að beina þeirri spurningu til ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Ég er hins vegar algerlega sammála því sem kemur fram í málflutningi hv. þingmanns að það vinnulag sem Alþingi hefur tileinkað sér árum og áratugum saman, og þingmaðurinn lýsti ágætlega, er ekki til eftirbreytni. Við eigum að leggja okkur miklu betur fram um að reyna að færa það til skárri vegar.

Ég ætla þó að leyfa mér að vona að þau mál sem við eigum von á á næstu dögum eða vikum frá ríkisstjórninni kom til umræðu sem allra fyrst og mun beita mér fyrir því.