140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka til máls um þá umræðu sem átti sér stað um stöðuna á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Það er ekki eingöngu hægt að kenna Evrópusambandinu um stöðuna á viðræðunum, þetta er að einhverju leyti til heimagerður vandi að ekki hefur gengið jafnhratt að leysa og menn stefndu að.

Ég held að mikilvægt sé að við sameinumst um að horfa á þetta verkefni þannig að vel gangi af öryggi og festu en gleymum því hins vegar ekki að það er einstaklega vond samningatækni að gefa um það yfirlýsingar að viðræðunum eigi að vera lokið fyrir tiltekinn tíma. Frekar eigum við að horfa til þess að ná fram góðum samningi sem hefur einkenni gæða fyrir íslenskt samfélag og þjóðfélag frekar en að samningsgerð ljúki fyrir tiltekinn tíma.

Markmiðið á að vera góður samningur, virðulegi forseti, ekki að samningur liggi fyrir á tilteknum tíma. Við eigum öll í þessum þingsal að sameinast um það verkefni að færa þjóðinni góðan samning til að taka afstöðu til og virða svo þá niðurstöðu sem þjóðin kemst að á réttum tíma.

Hér var mynduð ríkisstjórn jafnaðarmanna um það verkefni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sá flokkur hlaut mesta brautargengið hjá þjóðinni sem setti það mál á oddinn, tæpur þriðjungur kjósenda studdi hann og það er því ekki nema eðlilegt að það mál fái framgang og sótt verði um, að aðildarviðræðurnar séu í góðum farvegi og að samningur verði svo lagður fyrir þjóðina þegar að þeim tíma kemur.

Mikilvægasta verkefnið er að stefna að góðum samningi og ég vona að sem flestir í þessum þingsal séu mér sammála um að markmiðið eigi að vera góður samningur sem lagður verður fyrir þjóðina. (Gripið fram í.)