140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[14:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að gera grein fyrir breytingartillögu sem ég legg fram við þetta frumvarp. Á undanförnum árum höfum við Íslendingar upplifað miklar náttúruhamfarir eins og við þekkjum öll, eldgos og jarðskjálfta og annað sem því getur fylgt. Við höfum lengi unnið að undirbúningi á hættumati og viðbragðsáætlun til að geta brugðist sem best við þeirri náttúruvá sem við búum við í þessu strjálbýla landi. Við höfum ekki haft burði til að sinna því sem skyldi og það er heilmikið verk óunnið. Það er því af mjög góðu einu að opnað skuli vera fyrir það fjármagn sem er til í ofanflóðasjóði. Ég vil nú segja að ekki verður nema mjög lítill hluti af því notaður til þessa verkefnis en við opnum fyrir það fjármagn til að undirbyggja áætlanir og gera hættumat til að auka öryggi borgaranna í landinu. Það er í sjálfu sér í samræmi við markmið slíkra sjóða.

Í þeim hugmyndum sem umhverfisnefnd hefur haft með að gera og í því frumvarpi sem liggur hér fyrir er talað um að það megi eingöngu nota þetta fjármagn eða þessa leið til að gera hættumat vegna eldgosa. Því er bætt inn í frumvarpið. Áður höfum við getað notað það vegna snjóflóða en nú er verið að bæta við: vegna eldgosa.

Ég veit að ég tala fyrir hönd allra þeirra aðila sem koma að björgun og skipulagi þeirra mála í samfélaginu, allra viðbragðsaðila, þegar ég legg það til að í stað þess að ganga svo skammt sem frumvarpið gerir ráð fyrir legg ég eftirfarandi breytingu til: „Í stað orðanna „hættumat vegna eldgosa“ í 3. gr. komi: hættumat og viðbragðsáætlanir vegna náttúruhamfara.“

Ég veit að þetta er samhljóða skoðun allra þeirra sem að þessum málum standa. Þegar vinna fer af stað vegna hættumats til dæmis vegna eldgosa á einhverju svæði getur sama svæði legið undir og verið eðlilegt að vinna hættumat á vegna jarðskjálfta á sama tíma. Það mun hjálpa okkur í að vinna vinnuna í meira skipulagi og í meiri heild. Þetta er tímabundin heimild til þriggja ára en mun hjálpa okkur að gera stórátak á þessu sviði sem er ekki vanþörf á. Ég hvet því þingmenn til að skoða þetta mjög vel og greiða þessu atkvæði. Allir okkar öryggisaðilar eru sammála um að þetta sé mikilvægt og ég hvet ykkur til að taka tillit til þeirra og efla þessa vinnu á næstu þremur árum til öryggis fyrir borgarana í landinu.