140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál. Þetta er mjög merkilegt mál og það væri gott að fá hljóð í þingsalinn því að hér er verið að stíga mjög markvert og þarft …

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Takk fyrir, frú forseti. Hér er verið að stíga mjög markvert skref í þá átt að skerpa á frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita almenningi upplýsingar þegar hætta er yfirvofandi eða frávik yfirvofandi vegna losunar mengandi efna sem geta haft áhrif á heilsu og lífsgæði fólks.

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalheiði Jóhannsdóttur, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, Kristínu Lindu Árnadóttur og Kristin Má Ársælsson frá Umhverfisstofnun, Trausta Fannar Valsson lögfræðing, Guðmund Hörð Guðmundsson frá Landvernd og Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Með því frumvarpi sem er til umfjöllunar hér og er á þskj. 59 eru lagðar til breytingar á lögum um upplýsingarétt um umhverfismál að því er varðar frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnvalda til upplýsingagjafar. Ég vil áður en ég fer nánar í nefndarálitið vekja sérstaka athygli á 1. og 3. gr. frumvarpsins.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til eftirfarandi orðalag í markmiðsgrein laganna: Að markmið laganna sé að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd, að tryggja rétt fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín, stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál og tryggja rétt almennings til að fá og frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um umhverfismál. Þetta er lagt til í breytingu á markmiðsgrein laga nr. 23/2006.

Ég vil líka vekja athygli á 3. gr. frumvarpsins sem lýtur að því að bæta við 10. gr. laganna nýrri málsgrein sem kveður á um skyldu stjórnvalda til að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að veruleg frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra.

Sný ég mér nú að texta nefndarálitsins. Aukin tíðni mengunarslysa hér á landi hefur leitt í ljós mikilvægi þess að lög og reglur sem lúta að frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnvalda séu skýrar. Bent hefur verið á að bæta þurfi lagaumhverfi mengunarvarna og umhverfislöggjöf í þessu skyni, sérstaklega er varðar upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings.

Fyrsti minni hluti nefndarinnar vekur athygli á því að nýlega var Árósasamningurinn lögfestur hér á landi með lögum nr. 131/2011 sem veita almenningi ríkari rétt en áður hefur verið til aðkomu að ákveðnum upplýsingum varðandi umhverfismál. Þá hefur frumkvæðisskylda stjórnvalda verið staðfest af Mannréttindadómstól Evrópu sem í dómsuppkvaðningu í máli frá 19. febrúar 1998 túlkaði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs á þann veg að stjórnvöldum bæri skylda til að upplýsa íbúa um mengun sem gæti hugsanlega haft áhrif á líf og heilsu svo að íbúar gætu tekið upplýsta ákvörðun um búsetu á menguðum svæðum.

Í 1. gr. frumvarpsins eru, eins og fyrr segir, lagðar til breytingar á markmiðsgrein laganna þar sem sérstök áhersla er lögð á rétt almennings til að fá upplýsingar um sitt nánasta umhverfi og taka upplýsta ákvörðun um búsetu sína og athafnir á svæðum þar sem hætta er á mengun. 1. minni hluti tekur undir ábendingar Umhverfisstofnunar um að aðgangur að upplýsingum um umhverfismál tryggi ekki einn og sér rétt fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði heldur sé upplýsingaaðgengi einn þáttur í slíku ferli. Enn fremur að greint skuli á milli þess að tryggja rétt almennings til að fá upplýsingar um umhverfismál annars vegar og þess að kveða á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um umhverfismál hins vegar. Því leggur 1. minni hluti til tvær breytingar á greininni þar sem brugðist er við þessum athugasemdum.

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að efla og styrkja upplýsingarétt almennings um umhverfismál og auka um leið skyldu stjórnvalda til að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf. 1. minni hluti tekur undir það sjónarmið að stjórnvöldum beri skylda til að upplýsa fólk um mengun sem geti hugsanlega haft áhrif á líf og heilsu þess svo að almenningur geti tekið upplýsta ákvörðun um búsetu og athafnir á menguðum svæðum. Hér er um að ræða frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar þegar mengunarfrávik verða sem geta haft skaðleg áhrif á fólk eða náttúru. 1. minni hluti áréttar jafnframt að ákvæði 6. gr. laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, kveður á um þær takmarkanir sem gilda um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Þá stendur einnig óhaggað það ákvæði 5. gr. sömu laga að stjórnvöldum sé ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi í té. Loks skal minnt á 3. gr. frumvarpsins, sem ég gerði grein fyrir hér áðan, þar sem kveðið er á um í hvaða tilvikum frumkvæðisskyldan gildir, þ.e. þegar ástæða er til að ætla að frávik vegna mengandi efna geti valdið hættu eða skaða fyrir umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. 1. minni hluti leggur jafnframt til þær breytingar á 3. gr. frumvarpsins að heimila ráðherra að afmarka nánar í reglugerð hvað teljist hættuleg eða skaðleg frávik.

Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að stjórnvöldum, sem falla undir skilgreiningu frumvarpsins, sé ávallt skylt án þess að þess sé óskað sérstaklega að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál. Hjá nefndinni kom fram það sjónarmið að sú breyting gæti skapað of almenna kvöð með hættu á ómarkvissu og ógagnsæju upplýsingaflæði. Hins vegar sé með breytingu þeirri sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins tekinn af allur vafi um frumkvæðisskyldu stjórnvalda án þess að hætta sé á ómarkvissu og ógagnsæju upplýsingaflæði. Einnig var á það bent að nauðsynlegt væri að hafa í huga þau ákvæði laga sem gilda um þagnarskyldu. 1. minni hluti fellst á þessi sjónarmið en bendir á að þagnarskylduákvæði laga halda gildi sínu óháð þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Auk þess vekur 1. minni hluti athygli á því að nú þegar hefur Umhverfisstofnun gert aðgengileg öll starfsleyfi sem stofnunin gefur út fyrir mengandi starfsemi og birtar eru allar eftirlitsskýrslur og ákvarðanir um þvingunarúrræði. Einnig er hægt að sjá yfirlit um friðlýst svæði og verndarskilmála, hvar helst er hætta á mengun og hvar viðkvæmustu svæðin eru.

Með þeim lagabreytingum sem frumvarpið felur í sér er sérstaklega stefnt að frumkvæðisskyldu stjórnvalda vegna þeirra frávika sem geta haft áhrif á umhverfi eða heilsu og lífsgæði fólks, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Undir þetta markmið tekur 1. minni hluti og telur að það nái fram að ganga með orðalagsbreytingu á 3. gr. frumvarpsins.

Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er bætt við fyrirvara um að stjórnvöldum geti verið skylt að afla sérstaklega upplýsinga þegar ástand er yfirvofandi sem getur haft skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Ljóst er að erfitt er að setja fram nákvæmar skilgreiningar um „yfirvofandi ástand“. Í þeim tilvikum verður að fara fram mat á aðstæðum hverju sinni og 1. minni hluti telur slíkt að fullu réttlætanlegt.

Fyrsti minni hluti nefndarinnar sem samanstendur af hv. þingmönnum Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, formanni, Ólínu Þorvarðardóttur, sem hér stendur, framsögumanni, Þuríði Backman og Merði Árnasyni leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem tilgreindar eru á blaðsíðu 2 í þskj. 876. Hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi nefndarinnar, er samkvæmt bókun samþykkur þessu áliti en hv. þingmenn Róbert Marshall og Atli Gíslason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi tel ég að hér sé mikilsvert mál á ferðinni. Það var lagt fram á 139. þingi en fékk ekki afgreiðslu þá. Tilefni þess að málið kom fram var sú mikla díoxínmengun sem uppgötvaðist frá nokkrum sorpbrennslustöðvum í landinu. Það mál leiddi í ljós brýna þörf fyrir skýrari lagaákvæði um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu hins opinbera en um leið varpaði það ljósi á ótrausta réttarstöðu almennings þegar um slíkt er að ræða.

Síðan hafa komið upp fleiri mál sem hafa rennt enn frekari stoðum undir þörf á löggjöf af þessu tagi, þ.e. kadmíummengun í áburði, iðnaðarsalt í matvælaiðnaði og fleira mætti til nefna. Ég tel að það sé fagnaðarefni að nú skuli löggjöf vera í burðarliðnum sem tekur af vafa um skyldu stjórnvalda gagnvart almenningi og treystir um leið rétt fólks til þess að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín á grundvelli upplýsinga og vitneskju.

Í trausti þess að þingið muni fara sanngjörnum og skynsamlegum höndum um þetta frumvarp læt ég máli mínu lokið.