140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[15:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem er eins og ég áhugamaður um hagsmuni barna og þar með barnafjölskyldna, hvað þessi breyting á virðisaukaskattskerfinu kosti ríkissjóð. Það er í fyrsta lagi. Í öðru lagi: Hvað á að gera til ráðstöfunar á móti?

a) Á að taka einhver útgjöld, eru einhver útgjöld sem við getum lækkað á móti þeirri tölu sem hv. þingmaður nefnir um að setja barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi í lægri skattflokk? Það var ekki með í fyrirspurn hans í gær.

b) Á að taka tekjur annars staðar að, þá hvaðan? Þetta er möguleiki.

c) Á að auka hallann á ríkissjóði, gera sumsé ekki neitt og borga þetta á næstu árum eða láta börnin okkar borga það þegar þau eru orðin stór?

Það má auðvitað segja að það sé ákveðið ljóðrænt réttlæti í því ef það er það sem hv. þingmaður vill. Gallinn við það er sá að þá þurfum við að borga vexti í leiðinni og börnin okkar þurfa að taka á sig miklar vaxtagreiðslur. Það er því miður þannig, forseti, þótt hv. þingmaður hafi ekki vikið að því í ræðu sinni að ríkið hefur talsverðar skuldir af ástæðum sem væntanlega er óþarft að nefna. Þessi skuldastaða og ástæðurnar fyrir henni valda því að ríkið er því miður að reyna að afla sér eins mikilla tekna og hægt er. Það er til hagsbóta fyrir einmitt börnin og barnabörnin.