140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er forvitinn að heyra hvaða álit hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur á vinnubrögðunum við einkavæðingu bankanna sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um. Ég held að það sé mikilvægt til þess að við færumst eitthvað fram í umræðunni að við náum að eiga orðastað um hvaða mistök voru gerð í fortíðinni, hvernig við getum lært af þeim og hvað Alþingi þarf að gera til að tryggja að sala á fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins eða einstökum hlutum í bönkum eða öðrum fyrirtækjum fari fram með þeim hætti sem við getum verið bærilega stolt af í framtíðinni.

Það er ein af ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis að veigamestu ákvarðanirnar um framkvæmd einkavæðingarinnar hafi verið pólitískar en ekki faglegar og að mjög hafi skort á skýra sýn á hvert markmiðið var með einkavæðingunni. Vakin er athygli á því að Landsbankinn var seldur til aðila sem hvorki bauð hæsta verð fyrir hlutinn né hafði reynslu eða þekkingu af rekstri fjármálastofnunar og svo mætti lengi telja. Það eru atriði sem við hljótum að taka til rækilegrar skoðunar og reyna að læra af í ferli sem þessu.

Af því að mér heyrðist hv. þingmaður vera að ýja að einhverju öðru vil ég ítreka að ég er stuðningsmaður þess að öll þau mál sem þingmaðurinn talaði um í ræðu sinni fjalla ekki um efni tillögunnar heldur þá atburði sem urðu eftir hrun, að þessir atburðir fái fulla og eðlilega rannsókn sem eðlilegt er. Auðvitað hafa þeir verið afdrifaríkir þó að ég telji að þau mál sem hér eru undir og leiddu til hruns fjármálakerfisins séu stórum alvarlegri en þeir þættir sem þingmaðurinn nefndi.