140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en mér nægir ekki að heyra þingmanninn segja að það þurfi að vera skýrar leikreglur um hvernig staðið verði að sölu fjármálafyrirtækja eða eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum í framtíðinni.

Við fórum í gegnum það á sínum tíma, árið 2001, að engin skilaboð voru frá þinginu um hvernig standa ætti að þessari einkavæðingu, ekki einu sinni að það skyldu vera skýrar leikreglur, einungis að þessir hlutir skyldu seldir og því fór sem fór. Auðvitað var einkavæðingin ekki eina orsök fjármálahrunsins eða hruns fjármálakerfisins á Íslandi en ég held að við getum ekki kastað þessum vandamálum út í heim og sagt: Það var vondum útlendingum að kenna að fjármálakerfið á Íslandi hrundi. Ég held að þá séum við á villigötum ef við ætlum ekki að taka til í eigin ranni og læra af þeim mistökum sem gerð voru í fortíðinni.

Af því að við erum í þeim sporum að það kann að koma að því fyrr en síðar miðað við fyrirætlanir stjórnvalda að við þurfum að selja hluti í ríkisfyrirtækjum er mjög mikilvægt að við, þingmenn í öllum flokkum, komum okkur saman um hvert inntak þeirra leikreglna á að vera sem menn hafa til hliðsjónar og vil ég gjarnan heyra sjónarmið þingmannsins hvað það varðar.