140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. í byrjun 10. áratugarins sem hefur haft gríðarlegar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Í þingsályktunartillögunni segir um markmið tillögunnar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003.“

Nefndin á að taka til umfjöllunar þá stefnu og viðmið sem lágu til grundvallar einkavæðingu bankanna og að hve miklu leyti þeim var fylgt í ákvarðanatöku og framkvæmd einkavæðingarinnar.

Nefndin á sömuleiðis að fjalla um gerð og innihald samninga við kaupendur bankanna, mat á eignum bankanna og að hve miklu leyti það samræmdist söluverði þeirra, efndir samninga og undanþágur frá ákvæðum þeirra, þar með talið afslætti frá kaupverði.

Nefndin á að bera einkavæðingu íslensku bankanna saman við sölu opinberra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndum og leggja fram tillögur til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni.

Gert er ráð fyrir að rannsóknarnefndin skili forseta Alþingis skýrslu um rannsóknir sínar eigi síðar en 1. janúar 2013 ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Rannsóknarnefndin fær með þessari þingsályktunartillögu, verði hún samþykkt sem mér sýnis augljóst þar sem bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar hafa lýst yfir stuðningi við tillöguna og vilja að hún nái fram að ganga, mjög mikið verkefni að vinna. Í sjálfu sér má segja að tíminn til 1. janúar 2013 sé tiltölulega skammur í það mikla verk sem þarna er um að ræða en það ætti samt sem áður að hafast ef við höskum okkur í þinginu og í þingnefndum við að koma þessari rannsókn á.

Eins og kom fram í máli flutningsmanns, hv. þm. Skúla Helgasonar, fyrr í dag í þessari umræðu er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þ.e. þeirrar sem rannsakaði orsök og aðdraganda falls bankanna og efnahagshrunsins, ekki farið ítarlega í ástæður og afleiðingar einkavæðingar bankanna og nefndin vísaði því í raun og veru frá sér inn í framtíðina, en vonandi erum við að bregðast við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar með þessari tillögu um að fram fari frekari rannsókn á einkavæðingunni en verið hefur.

Það er auðvitað athyglisvert og umhugsunarvert í fyrsta lagi hvernig það gat gerst að þessir þrír stóru bankar sem einkavæddir voru féllu að liðnum ekki sex árum með þvílíku falli að allt íslenska efnahagslífið riðaði til falls. Þegar stóru íslensku bankarnir, Kaupþing, Landsbanki Íslands og Glitnir hf. féllu voru liðin rétt tæp sex ár frá einkavæðingu tveggja þeirra og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins fór sömuleiðis í það á árunum á undan. [Kliður í þingsal.] Ef hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson og Birkir Jón Jónsson leggja nú saman og telja þetta saman þá fá þeir út einn, tveir og þrír, sem ég ætla að vona að við förum ekki að deila um hér. En það þarf að rannsaka ekki bara aðdraganda og fall bankanna sem slíkra …

(Forseti (SIJ): Forseti vill biðja þingmenn um að hafa hljóð í sal og gefa ræðumanni hljóð.)

Það er alger óþarfi að banka í bjölluna mín vegna, virðulegi forseti, ég ræð alveg við þessa tvo einn. (Gripið fram í.) Og jafnvel þótt fleiri bætist við. Ég frábið mér að verið sé að banka mikið í bjölluna, ég hef bara gaman af að takast á við það fólk sem er með frammíköllin. Það er ekki mikið á því að byggja hvort eð er.

Það var pólitísk stefna þeirra stjórnarflokka sem þá voru við lýði, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að einkavæða bankanna. Það kemur fram í stefnuyfirlýsingu þessara flokka þegar þeir mynduðu ríkisstjórn 1995 og þeir ítrekuðu hana 1997 og aftur að fjórum árum liðnum. Það var hins vegar ekki sérstök pólitísk stefna sem leiddi til einkavæðingarinnar þegar á reyndi. Það voru jú mótaðar einhverjar leikreglur í samstarfsyfirlýsingum þessara flokka, a.m.k. í þrígang, en þeim var ekki fylgt neitt eftir sérstaklega. Það voru aðrir hagsmunir hafðir að leiðarljósi þegar á hólminn var komið og einkavæðingin fór fram. Um þetta er vitnað ítarlega í rannsóknarskýrslunni þar sem fjallað er lítillega um hina svokölluðu einkavæðingu, eins og nefndin kemst að orði, en þar er nokkuð vel fjallað um það þegar horfið var frá pólitískum stefnum, pólitískum yfirlýsingum og aðrir hagsmunir fóru að ráða för.

Meðal annars er fjallað talsvert um áhugasama kaupendur, m.a. sænskan banka sem hafði áhuga á að koma að kaupum íslenskra banka, Landsbankans í því tilfelli, en var vísað frá á þeim tíma. Samkvæmt því sem fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis var það ákvörðun þáverandi forsætisráðherra og vitnað í hann beinlínis orðrétt, að það hafi verið hann sem tók ákvörðun um það og lagði línuna um að stöðva það ferli sem þá var í gangi þegar áhugi erlendra aðila var á því að koma inn í íslenska fjármálakerfið. Það er víða hægt að finna dæmi um slíkt og hv. fyrrverandi þingmaður, Valgerður Sverrisdóttir, þá viðskiptaráðherra, segir oftsinnis í rannsóknarskýrslunni að átök hafi verið á milli foringja flokkanna, þ.e. annars vegar þáverandi forsætisráðherra og hins vegar þáverandi utanríkisráðherra, úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, um hvernig skipta ætti þessum bönkum upp. Í nokkuð ítarlegu máli er farið yfir það og því lýst af hálfu þeirra sem þá voru á vettvangi hvernig þau átök endurspegluðust, hvernig samtöl áttu sér stað á milli stjórnvalda og áhugasamra kaupenda hér heima, hvernig reynt var að þjappa þessum hópum saman í tvo þannig að skiptin yrðu nokkuð jöfn. Þar eru nefndir til ýmsir þekktir hópar úr sögunni, S-hópurinn, Kaldbakshópurinn og fleiri, Samson og slíkir, þar sem reynt var að búa til tvo aðila sem hægt væri að færa íslensku bankana fyrir tiltölulega lítið kaupverð ef þá nokkuð eins og það endaði á sínum tíma.

Allt þetta þarf auðvitað að rannsaka og hvers vegna horfið var frá því meginsjónarmiði sem báðir flokkarnir virtust hafa uppi, þ.e. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur á þessum tíma, að selja þessar eigur ríkisins í opnu ferli með dreifðri eignaraðild yfir í það að skipta þessu upp á milli tveggja þekktra hópa í samfélaginu. Rannsóknarnefnd Alþingis fjallar ekkert sérstaklega um þessi mál sem slík en dregur þetta fram mjög vel með tilvitnunum í þá sem hér voru, bæði fyrrverandi ráðherra og þingmenn, sem vekja auðvitað upp spurningar sem þarf að fá svör við. Það er í raun og veru það sem er niðurstaða rannsóknarnefndar þingsins, þ.e. að þar er lítillega fjallað um einkavæðingu bankanna, þar er auðvitað fjallað um fall þeirra sem má að mismiklu leyti rekja til einkavæðingarinnar, en óskað er eftir því og það kemur sérstaklega fram að draga þurfi fram þau atriði einkavæðingarinnar sem mögulega hafa haft þýðingu í því hvernig fór fyrir bönkunum á endanum og þar með íslensku efnahagslífi. Ég tel að með þessari þingsályktunartillögu sé Alþingi að bregðast við tilmælum rannsóknarnefndarinnar um að fara í þann leiðangur og ég á von á að Alþingi fallist á það.