140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:25]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka neina efnislega afstöðu til innihalds þeirrar ræðu sem hv. þm. Björn Valur Gíslason flutti hér. Ég skynja það og það skynja allir þingmenn að mikill áhugi er á að rannsaka fyrri tíð og margt gott má segja um það. Hins vegar komu ágætlega fram í andsvörum hv. 1. flutningsmanns Skúla Helgasonar og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar skoðanaskipti um rannsókn á einkavæðingu fjármálastofnana eða úrvinnslu þeirra. Þar voru nefnd ýmis fjármálafyrirtæki, Sjóvá, Byr, SpKef, Vestia o.s.frv. og ríkisbankarnir þrír sem voru líka einkavæddir.

Af því tilefni vildi ég gjarnan inna hv. þm. Björn Val Gíslason eftir því hvort hann taki ekki undir það með sama hætti og hv. þm. Skúli Helgason að full þörf sé á að ganga til þess verks að skoða allt og rannsaka það ferli sem þar var rætt, þ.e. hina síðari einkavæðingu fjármálastofnana. Ég treysti því og vona að hv. þingmaður taki vel í þá ósk sem uppi er. Svo virðist að það sé að myndast almenn samstaða um það á þingi að læra beri af þeim gjörningum sem þar voru framkvæmdir. Mér leikur forvitni á að vita hvernig hv. þingmaður tekur í þær óskir.