140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ekki andsvarið því þetta var eiginlega ekki andsvar í málinu sem við erum að fjalla um. Ég hef á tilfinningunni að þeir tveir stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað séu að skilyrða stuðning sinn við þessa þingsályktunartillögu. Að rannsókn á einkavæðingu ríkisbankanna, þjóðarbankanna á sínum tíma í byrjun 10. áratugarins, á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem fór vægast sagt illa, hörmulega, hrikalega illa, leiddi til hruns nánast í samfélaginu, efnahagslegs hruns, sé skilyrt því að það sé rannsakað sérstaklega hvernig núverandi stjórnvöld brugðust við því áfalli, þ.e. bera það saman við stjórnarstefnu í einkavæðingarferli bankanna á sínum tíma þar sem stjórnarflokkarnir á þeim tíma lögðu fram skýra stefnu um að ríkið ætti ekki að eiga neinar eignir, það ætti að selja þær og helst gefa þær ef réttir aðilar væri fyrir hendi. Að bera það saman við það þegar núverandi stjórnvöld fá sömu eignir — ríkið, samfélagið fær þessar sömu eignir í hausinn, fullkomlega í hausinn — innan við sex árum síðar með mörg þúsund milljarða króna bagga og segja: Eigum við ekki að rannsaka þessa einkavæðingu? Og kalla það einkavæðingu þegar ríkið fær það í hausinn — við sem sitjum í þinginu erum að glíma við afleiðingar þess sem þá gerðist og köllum það einkavæðingu. Ég er alveg til í að skoða hvernig í ósköpunum fór fyrir Sjóvá og bótasjóði Sjóvár. Það er meðal annars nefnt í skýrslu um lífeyrissjóðina hvernig fór fyrir honum. Það er verið að rannsaka það í dómsölum í Reykjavík hvernig bótasjóður Sjóvár var á sínum tíma nýttur í allt annað en átti að nýta hann og það er ágætt að sú rannsókn fari fram.