140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

108. mál
[17:05]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, eins og ég sagði í ræðu minni er vafalaust hægt að fara margar leiðir til að ná þessu markmiði en þetta frumvarp byggir á einni leið. Hugsunin var sú að gefa þeim sem eiga fulltrúa nú þegar annars vegar á Alþingi en hins vegar í sveitarstjórn möguleika á að fylgjast með störfum kjörstjórna.

Sú leið sem hv. þm. Þór Saari nefnir er að sjálfsögðu fær en hún gæti hins vegar leitt til þess að kjörstjórnirnar yrðu óskaplega fjölmennar og það gæti gert störf þeirra eitthvað þyngri í vöfum. En það má líka alveg hugsa sér aðrar leiðir, til dæmis að kjörstjórnir séu að hluta til kosnar hlutfallskosningu í viðkomandi sveitarstjórn eða á Alþingi og kannski að hluta til skipaðar fulltrúum sem væru tilnefndir til dæmis frá Hæstarétti eða frá Lagastofnun Háskólans, háskólasamfélaginu eða einhverjum öðrum aðilum. Það er hlutur sem mér finnst að megi velta fyrir sér í meðförum þingnefndarinnar af því að ég held að það sé engin ein leið alveg kórrétt í þessu.

Það er eins og ég sagði hægt að fara fleiri leiðir, ég mundi því alls ekkert útiloka það sem hv. þingmaður nefndi sem mögulega leið. En ég hef að minnsta kosti valið það í þessu frumvarpi, og hv. þingmaður var svo vinsamlegur að gerast meðflutningsmaður með mér, að fara þessa leið, alla vega sem fyrsta skref til að opna kjörstjórnirnar frá því sem hefur verið hingað til. Ég tel að það sé gott skref en ég mundi ekkert leggjast gegn stærri skrefum í því efni ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu við yfirferð sína.