140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

108. mál
[17:07]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið við andsvari mínu frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Það er kannski þetta sem málið snýst um, eiga kjörstjórnir að vera kosnar hlutfallskosningu? Á flokkspólitískur meiri hluti í kjörstjórn að vera til staðar til að ráða niðurstöðum kjörstjórnar, því að kjörstjórnir og landskjörstjórn eru í eðli sínu kannski fjöregg lýðræðisins og kosninganna sem fram undan eru hverju sinni? Er það heppileg staða að þar skuli meirihlutavald í krafti fjölda þingmanna á Alþingi geta ráðið för með mál eins og gerðist í tilfelli Borgarahreyfingarinnar í tveimur kjörstjórnum fyrir síðustu kosningar?

Það er kannski stærri spurning sem menn þurfa að velta fyrir sér og gæti verið mjög erfitt að leysa. En það skref sem frumvarp þetta stígur er vissulega mjög þarft og mjög gott fyrsta skref í rétta átt.

Ég velti því þá upp sem næsta skrefi í nefndinni eða kannski á öðru stigi tilverunnar að það yrði að lágmarki fulltrúi frá hverjum flokki sem á sæti á þingi og síðan í kjölfarið á því yrðu áheyrnarfulltrúar frá nýjum framboðum að einhverju marki. En það er rétt sem hv. þingmaður sagði að það gætu orðið ansi margir og fundir gætu orðið flóknir og tafsamir. En lýðræðið er hér undir og við þurfum alltaf að hugsa upp bestu leiðir til að framkvæmdin á því verði sem best. En ég fagna þessu máli og er ánægður með undirtektir hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar.