140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemd hans og get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans, að þær breytingar sem við höfum horft upp á í heilbrigðisþjónustunni á undanförnum árum hafa einmitt í allt of litlum mæli verið unnar í samráði við fólkið á viðkomandi svæðum, í samráði við sveitarstjórnir, í samráði við íbúa, í samráði við starfsmenn. Því miður horfum við upp á það sama nú við gerð fjárlaga fyrir árið 2012.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að þetta sé þjónusta sem standi fólkinu nærri. Heilbrigðisþjónustan er grunnurinn undir allri byggð í landinu. Það er gríðarlega mikilvægt að við tryggjum örugga og góða heilbrigðisþjónustu í öllum byggðum landsins og að ekki sé gengið nær þeirri þjónustu en gert hefur verið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að tillaga sem þessi nái fram að ganga því að þá kemur heimafólk á hverju svæði að rekstri viðkomandi stofnana og kynnist honum betur. Það er þá í betri stöðu til að berjast fyrir stofnanir sínar.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um hvernig skipað yrði í þessar stjórnir þá skipuðu sveitarfélög, starfsmenn og fleiri í stjórnir á sínum tíma og ég legg það í hendur nefndarinnar hvernig útfærslan yrði á því. Það skiptir ekki öllu máli hvort það eru svæðissamtök, einstök sveitarfélög, íbúasamtök eða hollvinasamtök sem gera það, mikilvægast er að fá tenginguna við rekstur stofnunarinnar inn á svæðið og við viðkomandi byggðarlag og þjónustusvæði stofnunarinnar.