140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra það. Ég er sammála þessu uppleggi. Ég held að það sé farsælt að þingnefndin fari yfir það í störfum sínum með fulltrúum frá svæðissamböndunum, sveitarfélögunum og öllum þeim öflugu sveitarstjórnarmönnum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem starfar af ágætum þrótti hvernig þessu verði best fyrir komið. Burt séð frá því hvernig stjórnvöld á hverjum tíma reyna eftir mætti og af góðum vilja að hafa samráð og standa með heimamönnum þegar kemur að breytingum, stundum óvæntum og sársaukafullum en líka uppstokkun og jákvæðum breytingum til að styrkja starfsemina, þurfum við að tryggja þetta flæði með mjög afgerandi hætti. Við höfum séð hversu vel það hefur gefist að færa viðkvæmustu nærþjónustuna til sveitarfélaganna þannig að þjónustan standi enn þá nær fólkinu. Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum standa eðlilega mun nær íbúunum en þeir sem eru á Alþingi hverju sinni. Í öllum aðalatriðum hefur það reynst mjög vel að hafa fært rekstur á grunnskóla til sveitarfélaganna. Ég held að það væri mjög farsælt að færa rekstur framhaldsskólanna, hugsanlega löggæsluna og eins og verið er að gera með málefni aldraðra og fatlaðra, beint til sveitarfélaganna og má vel vera að það gefist vel að færa heilsugæsluna og heilbrigðisþjónustuna í ríkari mæli til sveitarfélaganna. Gerð hafa verið tilraunaverkefni með þessa hluti og reynslan af því er ágæt. Auðvitað þarf að tryggja tekjustofna og annað slíkt. Ég skora á þingið, þingnefndina og hv. flutningsmenn þessarar tillögu að taka það allt inn í myndina um leið og við hugum að hinni beinu tengingu við fulltrúa svæðisins og leiðum til að færa þessi verkefni til íbúanna og sveitarstjórnanna.