140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek aftur undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að auka tengingar við viðkomandi byggðarlög og auka völd heimamanna í rekstri grunnþjónustunnar. Hins vegar þegar fjallað er um flutning verkefna til sveitarfélaganna er það mikið áhyggjuefni varðandi mörg þessara verkefna sem verið er að flytja til sveitarfélaganna að of litlir fjármunir virðast fylgja þeim. Ætli nefndin að skoða það samhliða þessu er það öllu viðameira verkefni. Ég held að það væri mjög skynsamlegt sem fyrsta skref að auka tengingar heimamanna við stjórnirnar og endurreisa stjórnir þessara stofnana sem fyrsta skref en hin umræðan er miklu stærri og viðameiri. Ef menn færu að setja þá umræðu í samhengi við tillöguna sem við ræðum hér mundi efni og tilgangur tillögunnar drukkna í þeim stóra sjó.

Að öðru leyti get ég tekið undir með hv. þingmanni um að það er sjálfsagt að skoða flutning einstakra verkefna til sveitarfélaga en þá verða tekjustofnar að fylgja með. Það verða að fylgja markaðir tekjustofnar með þegar slíkt er gert og sú umræða er miklu stærri og miklu viðameiri og ég vara við því að það sé mikið tengt þessu máli.