140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla bara að lýsa yfir miklum og afdráttarlausum stuðningi við tillögu til þingsályktunar um beina þátttöku sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnum heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Samhljóða mál hef ég flutt með fleiri þingmönnum Vinstri grænna á undanförnum árum, allt frá því að lögum um heilbrigðisþjónustu var breytt árið 2003, þar sem ákveðið var að leggja niður stjórnir heilbrigðisstofnana og afnema aðkomu sveitarfélaganna og íbúanna að stjórnum heilbrigðisstofnana á sínum svæðum.

Það var gríðarleg afturför að ákveða það og slíta öll tengsl milli ríkisvaldsins og heimaaðila á viðkomandi svæðum um að mega hafa áhrif á skipan heilbrigðismála í sínu héraði, geta komið ráðum að og verið með í ákvörðunum þar að lútandi. Því miður hafa þessar tillögur okkar ekki náð fram að ganga og við uppskerum þá umræðu eins og hefur verið á undanförnum mánuðum og missirum um að stjórnvöld fjarlægist stöðugt heimamenn hvað varðar skipan heilbrigðismála í héraði. Fátt hefur verið meira gagnrýnt á síðustu mánuðum, bæði í skipulagsmálum, heilbrigðisþjónustu og afgreiðslu fjárlaga eins og það samráðsleysi sem er á milli stjórnvalda og heimamanna í heilbrigðismálum.

Ég hef gagnrýnt þetta og þegar ég sat í ríkisstjórn gagnrýndi ég þessa skipan mála og lagði áherslu á að það yrði tekið upp mun nánara samstarf við heimamenn um skipan þessara mála fyrir utan það að ég varaði stórlega við þeim mikla niðurskurði sem hefur verið beitt í heilbrigðismálum, einkum á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Þess vegna er mjög mikilvægt að skipan þessara mála verði aftur leiðrétt. Hvarvetna í ályktunum sveitarstjórna vítt og breitt um landið hefur komið fram krafa um að mega taka þátt í skipulagsmálum varðandi heilbrigðisþjónustuna í sínum heimabyggðum en það hefur ávallt verið hunsað. Það gefur augaleið að heilbrigðisþjónustan er einn mikilvægasti þáttur fyrir þjónustustig í viðkomandi landshlutum, byggðarlögum, og ræður líka því hversu byggilegt er þar.

Við skulum ekki heldur horfa fram hjá því sem er að gerast, það er verið að þrengja mjög að starfsemi heilbrigðisstofnana úti um land, þeirri starfsemi sem íbúarnir þurfa að geta átt aðgang að. Maður getur svo sem minnt á að vegna hækkana á eldsneyti er býsna dýrt fyrir marga íbúa landsins að keyra um langan veg þar sem verið er að skera niður heilbrigðisþjónustuna. Í sumum landshlutum er hún þannig staðsett til dæmis með fæðingar að ef mæður sem eiga að fara að fæða barn eru ekki komnar vel í tíma í annan landshluta þar sem fæðingaraðstoð er eiga þær á hættu á löngum leiðum að fæða börn sín á þjóðveginum eins og við höfum heyrt um.

Því er mjög aðkallandi að tillagan sem hér er flutt nái fram að ganga. Það er krafa fólks um allt land að svo verði og ég hef talað fyrir þessu máli nánast á hverju ári síðan 2003 og geri það enn og áfram í þeirri von að við náum árangri. Heilbrigðisþjónusta er mál fólksins á viðkomandi svæðum, en ekki bara eitthvert apparat sem stjórnsýslan ein á að fá að ráðskast með. Það hefur skort á samráð og samstarf við heimaaðila hvað heilbrigðisþjónustu varðar og þessi tillaga miðar í þá átt að treysta og byggja upp það samstarf á ný.