140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[17:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með frábæra útreikninga og mikla framtíðarsýn í því efni að hann hefur nú aukið tekjur heimila og bensínkaupenda um 9–10 milljarða á tímabilinu apríl til desember með því að fella út 9–10 milljarða álögur sem annars hefðu runnið í ríkissjóð en ríkissjóður tapar ekki nema 1–2 milljörðum. Í þessu dæmi hjá hv. þingmanni hefur hann skapað, á einum 12 mínútum, eina 8 milljarða. Þeir hafa bara orðið til hér í loftinu í þessum góða sal þar sem peningar hafa yfirleitt horfið frekar en að þeir hafi orðið til.

Þetta er algjörlega stórkostlegt og ég bíð eiginlega eftir að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson verði fjármálaráðherra í landinu því að þá græða allir og það verða stöðug jól. Hann býr til upphæðir á annan vænginn og afhendir þær á hinn þannig að allir græða, hér græða allir.

Ég harma auðvitað að þingsályktunartillaga hans í fyrra, sem var alveg eins, skuli ekki hafa verið samþykkt því að þá værum við öll forrík og þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur. Þá minntist hann líka á að það væru svona tímabundin vandræði með bensínverðið og olíuna sem mundu leysast. Það væri frelsisbylgjan í Arabíu og kjarnorkuverið í Japan, og núna er það eitthvað annað. Af hverju eigum við að trúa honum núna þegar komið er í ljós að hann hafði rangt fyrir sér fyrir ári?