140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

Vestfirðir sem vettvangur þróunar, rannsókna og kennslu á sviði sjávarútvegs.

60. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Þetta er í þriðja skipti sem ég mæli fyrir þessari þingsályktunartillögu um Vestfirði sem vettvang þróunar, rannsókna og kennslu á sviði sjávarútvegs og í málefnum haf- og strandsvæða. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Einar K. Guðfinnsson, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Tillagan hljóðar þannig að Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skilgreina Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna í málefnum hafsins og strandsvæða, m.a. á sviði atferlis- og veiðarfærarannsókna og þorskeldis. Skilgreiningin verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum. Þetta verði gert í tengslum við þá heildarstefnumótun sem fram undan er og boðuð hefur verið í upphafi þessa kjörtímabils af hálfu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í málefnum háskóla landsins og sem liður í því að:

marka hverjum landshluta sérstöðu í rannsóknum og kennslu, og

leggja grunn að uppbyggingu og verkaskiptingu á sviði rannsókna og háskólakennslu á landsvísu.

Eins og ég sagði áðan er þetta í þriðja sinn sem þetta mál er flutt hér. Tillagan var áður flutt á 138. og 139. löggjafarþingi en var ekki útrædd á hvorugu þinginu. Það má kannski segja að allt sé þá þrennt er og von til þess að málið nái lyktum núna svo einfalt sem það er.

Um málið hafa borist umsagnir frá allmörgum aðilum sem hafa flestallir tekið undir markmið tillögunnar.

Það má geta þess að þetta mál er líka flutt í samhengi við annað þingmál sem enn hefur ekki komist á dagskrá en var flutt í fyrra og varðar sérgreiningu landshlutanna almennt með svipuðum hætti og hér er lagt til varðandi Vestfirði.

Eins og ég sagði þá boðaði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í upphafi þessa kjörtímabils heildarendurskoðun í málefnum háskólanna. Slík endurskoðun er tímabær. Hún kallar á skýrari stefnumótun en verið hefur þar sem umsvif háskólastarfsemi hafa aukist ört í landinu undanfarin ár. Við mótun mennta- og rannsóknastefnu háskólastigsins er mikilvægt að horfa til sérstöðu háskólasvæðanna og nýta sem best það atgervi og þær stofnanir sem fyrir eru í hverjum landshluta.

Þegar taka þarf ákvarðanir í atvinnumálum er einnig mikilvægt að líta til nýsköpunar- og þróunarmöguleika í samstarfi atvinnufyrirtækja og háskólaumhverfisins.

Á Vestfjörðum hefur nú þegar þróast háskóla- og rannsóknaumhverfi með Háskólasetri Vestfjarða, rannsókna- og fræðasetrum Háskóla Íslands í Bolungarvík og á Patreksfirði, Vestfjarðaakademíunni, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði, Matís og fleiri aðilum.

Atvinnufyrirtæki og sveitarfélög í fjórðungnum sameinuðust fyrir fimm árum um stofnun Háskólaseturs Vestfjarða ásamt háskólunum í landinu, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og fleirum sem stóðu að stofnun Háskólaseturs Vestfjarða. Setrið hefur nú byggt upp námsleið í haf- og strandsvæðastjórnun í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Á sama tíma hefur Hafrannsóknastofnunin á Ísafirði verið að gera merkilegar veiðarfærarannsóknir í samstarfi við Impru á Nýsköpunarmiðstöð og Hraðfrystihúsið Gunnvöru og Matís, sem hefur verið með þorskeldistilraunir, auk þess sem ný rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík og á Patreksfirði, Náttúrustofa Vestfjarða og Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands hafa sinnt umhverfis-, snjóflóða- og dýralífsrannsóknum, svo að nokkuð sé nefnt.

Nú, þegar fyrir liggur að skerpa stefnumótun íslenska háskólastigsins, liggur beinast við að byggja á þeim grunni sem þegar er til orðinn. Þannig væri eðlilegast að miða rannsókna- og fræðastarf á Vestfjörðum við málefni hafsins og strandsvæða almennt. Slík skilgreining mundi efla rannsóknastofnanir á Vestfjörðum og þau atvinnufyrirtæki sem nú þegar sinna þar rannsókna- og þróunarstarfi. Eins og ég sagði áðan væri æskilegt að farið yrði í sams konar skilgreiningarvinnu fyrir aðra landshluta sem byggði á sérstöðu þeirra vegna þess að landsvæðin hafa hvert sín sérkenni, sum héruð eru mjög frjósöm landbúnaðarhéruð, önnur eru orku- og auðlindarík og enn önnur svæði mjög vel fallin til ferðaþjónustu o.s.frv. Sumir landshlutanna eru nú þegar farnir að skilgreina sérstöðu sína með tilliti til sóknarfæra og væri æskilegt ef hægt væri að taka slíka stefnumótun inn í opinbera stefnumótun. En það bíður frekari átekta, þess að það mál verði flutt hér í þinginu.

Svo að ég haldi mig við Vestfirði og sérstöðuna þar er má segja Vestfirðirnir séu náttúruleg rannsóknastofa á sviði sjávarlíffræði, fiskeldisrannsókna, veiðarfærarannsókna, sjávarvistkerfa og stranda, hafstrauma og annarra umhverfisþátta sem tengjast hafinu. Rannsókna- og fræðasetur þau sem fyrir eru hafa góð tök á því að halda uppi innbyrðis samstarfi og einnig samstarfi við atvinnufyrirtækin í nágrenninu. Þar má nefna vélsmiðjur, rafmagnsverkstæði, sjávarútvegsfyrirtæki, hátækniframleiðslu o.fl. Þetta þróunar- og rannsóknastarf mætti efla enn frekar og nýta í þágu háskólastigsins og atvinnulífsins á Vestfjörðum.

Það má geta þess að Fjórðungssamband Vestfirðinga fyrir hönd sveitarfélaganna á svæðinu hefur lagt áherslu á aukinn stuðning við þróunar- og nýsköpunarstarf innan sjávarútvegsins, t.d. í fiskeldi, kræklingarækt, sjávartengdri ferðaþjónustu og nýjungum í matvælaframleiðslu. Enn fremur að rekstrargrundvöllur og núverandi námsframboð Háskólaseturs Vestfjarða verði tryggt til framtíðar ásamt nauðsynlegu fjármagni til frekari uppbyggingar nýrra námsbrauta, t.d. meistaranámi. Þá er Fjórðungssambandið þess hvetjandi að stjórnvöld tryggi áfram fjármögnun til rannsóknastarfs á Vestfjörðum.

Í þessu sambandi má einnig minna á nálægðina við auðlindir sjávarútvegsins, fiskimiðin, sem góðan grundvöll fyrir því að rannsóknamiðstöð í þorskeldi verði á Vestfjörðum, sömuleiðis að atferlis- og veiðarfærarannsóknir verði starfræktar í samvinnu rannsóknastofnana á svæðinu.

Þessi þingsályktunartillaga er í góðu samræmi við áður fram komna stefnumótun sveitarfélaganna og atvinnulífsins.

Í nágrannalöndum okkar er að finna dæmi þess hvernig öflugar háskóla- og rannsóknastofnanir hafa orðið til á grundvelli skilgreiningar sérstöðu af því tagi sem hér er lögð til. Það má t.d. nefna háskólann í Tromsö sem hefur skilgreint sig á alþjóðavísu sem miðstöð rannsókna og kennslu í málefnum haf- og strandsvæða á norðurslóð.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, frú forseti. Ég tel að hér sé mjög þarft mál á ferðinni. Það er útgjaldalaust og eiginlega einungis til þess fallið að betur sé farið með þá fjármuni sem á annað borð er verið að beina í rannsókna- og þróunarstarf á landsbyggðinni og eins á landsvísu almennt. Þetta mál lýtur beinlínis að því að þrengja þann farveg og gera hann skilvirkari þannig að fjármunir nýtist sem best og ráðstöfun þeirra verði sem markvissust.

Að svo mæltu í þeirri einlægu von að núna nái þetta mál loksins fram að ganga mælist ég til þess að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til efnistaka fyrir síðari umr.