140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, um hina hliðina á medalíunni, þ.e. um sparifjáreigendur og sparifé. Íslendingar spara langmest í gegnum þvingaðan sparnað í gegnum lífeyrissjóðina og síðan eitthvað, ekki mikið, í gegnum frjálsan sparnað. Nú eru uppi hugmyndir um að ganga í lífeyrissjóðina eins og ekkert sé og nota þá til að lækka skuldir. Á sama tíma eru 80% af innstæðum landsmanna á óverðtryggðum reikningum með stórlega neikvæðri ávöxtun sem er svo skattlögð, og þá er ég að tala um raunávöxtun. Ég ætla að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér, segjum eftir 10–15 ár, hvað varðar möguleika á að fá lán.

Lífeyrissjóðirnir skapa mikið lánsfé fyrstu árin sem þeir starfa en það fer síminnkandi og frjálsi sparnaðurinn er mjög veikburða. Með því að horfa upp á neikvæða ávöxtun á innlánum og skattleggja það 20% þá er verið að gefa merki um að fólk eigi ekki að spara, það er mjög einfalt, að það sé bara óskynsamlegt að spara fyrir utan að engin ríkisábyrgð er á innstæðum og þetta er allt saman mjög óvisst.

Ég vil síðan spyrja hv. þingmann um raunhækkun á fasteignaverði og hvort það tengist því að innstæður séu með neikvæðum vöxtum, hvort fólk sé að flýja af innstæðum yfir í fasteignir og hvort við séum að komast inn á tímabil sem sum okkar sem eldri erum þekkjum, tímabilið um 1980 eða svo, þegar engin lán var að fá neins staðar.