140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þá umræðu sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, tók upp áðan um stöðu mála varðandi gengistryggðu lánin og vekja sömuleiðis athygli á þeim fréttum sem við fengum inn til nefndarinnar í morgun um harkalegar innheimtuaðgerðir fjármálafyrirtækjanna gagnvart þeim aðilum sem voru með gengistryggð lán og hafa sumir hverjir fengið aukinn rétt með nýlegum dómi Hæstaréttar. Ég tel að þetta séu í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð og kalli á hörð viðbrögð stjórnvalda. Ég fagna því að nefndin komi saman síðar í dag til að fara yfir málið.

Á sama hátt er mikilvægt að við sendum sterk skilaboð frá þinginu varðandi þann misbrest sem virðist vera á viðbrögðum sýslumannsembætta í landinu við þeirri stöðu sem upp er komin og tengist aðförum að eigum lánþega. Það er ekki við það búandi að sýslumaðurinn í Reykjavík og sýslumaðurinn í Kópavogi komi eðlilega fram gagnvart neytendum en sýslumannsembættin annars staðar á landinu geri það ekki. Það kom fram á fundinum í morgun að menn eru þar í einhverjum tilvikum að bera fyrir sig að lagaheimild skorti fyrir aðgerðum sem fela í sér stöðvun aðfarar á grundvelli dómsins. Ef það er þannig þá þarf Alþingi Íslendinga að bregðast hratt og vel við. Ég vil að það verði skoðað mjög gaumgæfilega hvort nauðsynlegt er að leggja fram frumvarp sem veiti almenna heimild til sýslumannsembætta úti um allt land til að grípa inn í neytendum til varnar í þessari stöðu.

Það verður vissulega ákveðin óvissa á næstunni meðan við fáum endanlega úr því skorið hvert fordæmisgildi þessa dóms er fyrir neytendur í landinu. En við hér í þinginu höfum það hlutverk að reyna að verja hagsmuni neytenda á meðan sú óvissa stendur yfir með því að samræma vinnubrögð sýslumannsembætta um landið, með því að beita okkur gegn óréttmætum aðgerðum bankanna og með því að skoða þætti eins og endurupptöku mála, flýtimeðferð og ákvæði sem auðvelda hópmálsókn í prófmálum.