140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Áður en ég kem að aðalefninu hér langar mig að benda á að þegar hér er rætt um sparnað og lífeyrissjóði settu mjög margir Íslendingar sparnað sinn í húsnæðiskaup og litu svo á að sú eign sem átti að myndast í húsnæði yrði sparnaður þeirra þegar á efri ár kæmi. (Gripið fram í.) Ég ætla að biðja þá sem tala um sparnað og lífeyri og vilja verja lífeyrissjóðina að hafa þetta í huga líka.

Frú forseti. Ég kem aðallega hingað upp til að spyrjast fyrir um atriði sem samið var um þegar þingi var að ljúka, mig minnir að það hafi verið septemberþingið en það kann að vera styttra síðan. Þá var samið um að sett yrði á fót nefnd um endurskoðun á peningastefnu og gjaldmiðlamálum og nefnd um gjaldeyrishöft. Nefnd um gjaldeyrishöft hefur komið saman en hin nefndin hefur aldrei komið saman. Mér vitanlega hefur hvorug þessara nefnda fengið skipunarbréf.

Mig langar að biðja hæstv. forseta að beita sér gagnvart efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um að þessi vinna hefjist nú þegar, að nefndirnar verði kallaðar saman og, frú forseti, að staðið verið við það samkomulag sem gert var þegar þingstörfum lauk hér. Það hefur ekki verið gert enn.

Hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, kallaði eftir tilnefningum í þessar nefndir. Eftirmaður hans hefur ekki eða virðist ekki ýta á það að þær taki til starfa. Við hljótum að fara að velta því fyrir okkur, frú forseti, hvernig á því standi að þessar nefndir hafi ekki enn hafið störf. Hvaða ástæður liggja að baki? Mig langar að biðja virðulegan forseta að hafa samband við efnahags- og viðskiptaráðuneytið til að tryggja að staðið verði við það samkomulag sem hér var gert og nefndirnar hefji störf nú þegar.