140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við einhver hryssingsleg ummæli hv. þm. Marðar Árnasonar. Ástæða þess að mál gengur til þriggja umræðna á Alþingi og getur farið til nefnda á milli umræðna er auðvitað sú að ýmis sjónarmið geta komið upp í málunum og þau þurfa vandlega skoðun áður en þau eru gerð að lögum. Það er meginreglan. Ég segi að í þessu máli sé það tilfellið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta mál er flutt af góðum hug og það þjónar mjög mikilvægum tilgangi. Hins vegar er ekki nóg að ásetningurinn sé góður, heldur þarf útfærslan að vera framkvæmanleg þannig að lögin nái tilgangi sínum. Ég reyndi áðan að lýsa því að það væru akkúrat slíkir þættir sem við hefðum áhyggjur af, ekki það að mér eða öðrum hér þyki eðlilegt að stjórnvöld þegi um eitthvað sem getur valdið hættu eða ógnað lífi eða heilsu fólks. Auðvitað er það ekki svo.