140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tel rétt að taka hérna fram að ég hef gert athugasemdir við þá tillögu forseta þingsins að líta svo á að hér verði kvöldfundur um þetta tiltekna mál og hef fært fyrir því rök á fundi forseta með þingflokksformönnum. (Gripið fram í.) Ég sé enga (Gripið fram í.) ástæðu til að hafa umræðu um þetta mál inn í kvöldið og veit ekki hver óskar eftir því. Engin slík ósk hefur borist, hvorki þingflokksformönnum mér vitanlega né forseta þingsins. Ég sé ekki hver þörfin er fyrir að halda þessum fundi áfram inn í kvöldið út af þessu tiltekna máli. Ég veit ekki hver þrýstingurinn er og hef ekki fengið nein svör við því þannig að ég vil að það komi hér fram að ég hef gert athugasemdir við þetta. Ég mun hins vegar ekki greiða atkvæði gegn því þó að það komi til atkvæðagreiðslu að hér verði kvöldfundur. Ég hef aldrei beðist undan slíku.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að hann sagði að hann teldi það samkomulag að umræðum um málið lyki á þessum fundi.)