140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið leiðarljós í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessu máli að færa ekki dómstóla inn í hliðarsali Alþingis. Ég ætla heldur ekki að fara með það hlutverk inn í þennan þingsal. Ég lít á það sem höfuðskyldu Alþingis að blanda sér ekki í dómsmál. Ég tel að sá málflutningur sem hér hefur verið uppi hafður skýri einmitt af hverju hinir gömlu lögfræðingar sem nú eru allir fyrir handan höfðu þá skoðun sem þeir höfðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)