140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins um gögnin af því að þau eru gerð að sérstöku umræðuefni í nefndaráliti meiri hlutans. Þetta eru opinber gögn, stjórnsýslugögn sem aðgangur er opinn að samkvæmt stjórnsýslureglum. Gagnalistar í málinu hafa þegar legið lengi fyrir á netinu, listar sem geta veitt áhugasömum blaðamönnum eða almenningi leiðsögn um það eftir hverju þeir eiga að spyrja ef þeir vilja afla sér þessara gagna.

Það var farið sérstaklega yfir þetta í nefndinni, einmitt vegna þess að einhverjir höfðu áhyggjur af því að með því að ljúka þessu máli með afturköllun væri verið að varpa leyndarhjúp yfir einhver gögn. Svo er ekki, yfirferð nefndarinnar leiddi einmitt í ljós að svo er ekki. Þess vegna er það villandi sem fram kemur. Það er ekki rangt sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans um þetta en það er villandi vegna þess að það vantar stóran part inn í, að þetta eru gögn sem að stærstum hluta hygg ég eru háð upplýsingalögum og aðgengileg sem slík. Það er kjarni málsins, en að vísu hefur enginn rannsakað það nákvæmlega.

Varðandi hins vegar hitt held ég að við séum, a.m.k. ef ég skil hv. þingmann Valgerði Bjarnadóttur rétt og les nefndarálit meiri hlutans rétt, sammála um að Alþingi er heimilt að afturkalla. Spurning sem hver þingmaður þarf hins vegar að spyrja sjálfan sig er hvort hann telji tilefni til þess að afturkalla.

Þegar hefur farið fram atkvæðagreiðsla í þinginu um frávísun á sömu forsendum og lagt er upp með í lok nefndarálits hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Alþingi hefur svarað þeirri spurningu.

Ég hef ekki gert athugasemdir við forseta út af því en það er furðulegt að meiri hlutinn skuli gera það að sinni aðaltillögu að bera fram tillögu sem þegar hefur verið felld í þinginu. (Gripið fram í: Rétt.)