140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf):

Frú forseti. Ég kaus að skila sérstöku nefndaráliti í málinu vegna þess einfaldlega að mér fannst það fyrra ekki fara nógu ítarlega ofan í þetta mjög svo flókna mál. En ég er sammála meginniðurstöðu nefndarinnar og þeim tillögum sem hún gerir. Ég hef rökstutt frávísunartillöguna sem var hér til umræðu áðan þannig að ég er ekki enn sannfærður um að málið hafi átt heima á dagskrá þingsins og rökstyð það með tvennum hætti. Annars vegar er það formið á tillögunni sem gerð er og hins vegar það að Alþingi hafi alls ekki frumkvæðisrétt í málinu.

Síðan er ég líka á þeirri skoðun að það séu ekki uppfyllt skilyrði til þess að falla frá saksókn eða til þess að afturkalla ákæruna, en þessu er nokkuð vafið saman í þeirri tillögu sem er til umfjöllunar.

Ég ætla að fara í gegnum þetta á skipulegan hátt. Aðeins um form tillögunnar. Ég verð að játa að þegar ég sá tillöguna kom mér á óvart að þar skyldi vera fjallað um það að fella úr gildi ályktun Alþingis. Ég byrjaði að velta því fyrir mér hvað það þýddi. Hafði það einhverja efnislega merkingu að fella úr gildi ályktun Alþingis? Ég spurðist fyrir hvort það hafi einhvern tímann verið gert. Svörin sem ég fékk við því voru að ekki fyndust dæmi um að Alþingi hefði tekið slíka ákvörðun, vegna þess að málið er í sjálfu sér ekki flókið. Vilji menn afturkalla ákæru þá er gerð krafa um afturköllun ákæru. Ég er því í vafa um hvað það þýði og velti því fyrir mér hvort það hafi einhver áhrif, til dæmis þau — nú er ég kannski svo ókunnugur — að ef felld er úr gildi ályktun um ákæru, á hvaða stig er málið þá komið? Er það þá komið eins og það var eftir 1. umr. í þinginu þannig að tillagan sé enn til umræðu, því að ákvörðunin sjálf er felld úr gildi, og það verður að taka hana upp á nýtt? Það mundi kalla á efnislega umræðu sem kallað hefur verið eftir. Hefur þetta áhrif á réttarstöðu kærða? Hugsanlega skaðabótarétt hans? Hefur þetta áhrif á varðveislu þeirra gagna sem um er að ræða? Eða hver er tilgangur flutningsmannanna með þessu? Kannski er hann sá að vera með belti og axlabönd. Og stundum gera lögfræðingar það, að reyna að vera með belti og axlabönd og kasta þeim beitum út í ána sem þeir telja að einhver geti bitið á hverju sinni en hafa kannski ekki alveg gert sér grein fyrir hvaða beitu fiskurinn á að taka.

Þetta er þessi formlega ástæða. Þetta er einstakt, þetta hefur ekki verið gert áður. Ég kannast ekki við það að saksóknari taki ákvarðanir með þessum hætti ef ákæra er felld niður. Hann tekur ekki sjálfstæða ákvörðun um að fella eigin ákvörðun úr gildi, hann bara fellur frá ákæru og setur punkt aftan við það. Þess vegna tel ég að í rauninni hafi þessi þingsályktunartillaga aldrei verið þingtæk af þeim ástæðum.

Síðan aðeins um það hvort — og ekki aðeins, það er kannski kjarninn í málinu: Hefur Alþingi heimild til þess að gera það sem flutningsmaður biður Alþingi um að gera? Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Þingið hafi ekki heimild til að gera það.

Ég ákvað að fara ofan í þau skrif sem fræðimenn hafa haft um þetta í gegnum árin og skoða það svolítið hvað menn voru að segja, sérstaklega vegna þess að stundum var því haldið fram og því hefur verið haldið fram að tilteknir fræðimenn hafi skipt um skoðun yfir nótt eða á milli áramóta, milli 1913 og 1914. Ég fer því skipulega í gegnum þá fræðimenn sem um þetta hafa fjallað. Þeir eru Lárus H. Bjarnason sem er ekki í nokkrum vafa í riti sínu, þegar hann gefur út sína stjórnlagafræði á árinu 1913, að þetta sé óheimilt; þingið sé úr málinu og fari ekki í það aftur. Sagt er að hann hafi skipt um skoðun árið eftir þegar út kom ítarlegra sérrit um landsdóminn þar sem hann bætir því við að Alþingi geti að sjálfsögðu fellt ákæru niður áður en málið væri komið í dóm. Við lifum núna á árinu 2012. Hann skrifar þetta fyrir 100 árum. Ég fór þá að skoða hvaða lagamál tömdu menn sér á þeim árum. Þá kemur það upp úr dúrnum, sem mig grunaði, að þegar Lárus H. Bjarnason talar um að mál sé komið í dóm er hann að tala um dómfestingu máls, þingfestingu máls, þannig að hann áskilur Alþingi heimild til að falla frá ákæru þar til málið er þingfest, þar til það er komið í dóminn, eftir það sé máli lokað. Þetta sést ef rit hans er lesið af gaumgæfni og eins ef skoðaður er sá lagatexti sem menn notuðu á þeim árum. Það er nóg að vísa til dæmis í lög um landsdóm, landsdóminn sjálfan. Hægt er að fara í upphafsákvæði 104. gr. laganna frá 1936, sem raunar er skrifað um 20 árum seinna. Engu að síður byggir það á sama lagamáli. Það er alltaf talað um að mál séu tekin í dóm þegar þau eru þingfest, en þau eru tekin upp til dóms þegar mál eru tekin til að kveða upp úr dóma um þau.

Ég er því ekki á þeirri skoðun að Lárus H. Bjarnason hafi skipt um skoðun, enda hafa fjöldamargir fræðimenn skrifað um þetta málefni eftir hann. Þeim hefur aldrei dottið það í hug að Lárus H. Bjarnason hafi skipt um skoðun. Sá sem skrifaði næst á eftir honum var dr. Bjarni Benediktsson. Það hvarflaði ekki að honum. Það er ekki fyrr en núna á árinu 2012 sem menn skrifa blaðagrein og halda því fram að þetta sé svona.

Dr. Bjarni Benediktsson gaf út rit sitt, sem er ágrip af íslenskri stjórnlagafræði, ágætt rit, árið 1940. Hann er nákvæmlega á þessari skoðun; þingið er úr málinu. Hann rökstyður það raunar ekkert sérstaklega, það er alveg rétt.

Sá næsti sem skrifar um þetta er Ólafur Jóhannesson prófessor, fyrrverandi ráðherra, líkt og Bjarni Benediktsson var. Hann gefur út rit sitt árið 1960. Hann er í engum vafa. Hann er ekki í nokkrum einasta vafa. Málið er úr höndum þingsins.

Gunnar G. Schram gefur út sitt rit árið 1997. Hann er í engum vafa. Málið er úr höndum þingsins.

Loks eftir að lögin nr. 88/2008 hafa tekið gildi 1. janúar 2009 ritar Andri Árnason hæstaréttarlögmaður, sem er ágætur og góður lögmaður, grein í tímarit lögfræðinga og kemst að sömu niðurstöðu. En því er akkúrat haldið fram hér að lögin nr. 88/2008 hafi breytt öllu réttarfari í landinu og stjórnarskránni um leið. Það hvarflaði ekki að Andra Árnasyni.

Róbert Spanó prófessor rökstyður þetta í grein í Fréttablaðinu sem ekki er fræðileg grein heldur örstutt blaðagrein sem ekki er ritrýnd eða uppfyllir nokkur skilyrði þess að vera fræðileg grein. Hann segir að með gildistöku laganna nr. 88/2008 þegar saksóknari fær skýrari heimildir til að falla frá saksókn hafi eitthvað gerst í stjórnskipun Íslands, þá hafi Alþingi allt í einu fengið heimild til að koma að málinu, ólíkt því sem eldri fræðimenn höfðu sagt. Þetta er rökstutt svona.

En hver er staðreyndin í málinu? Staðreyndin í málinu er sú að mál sem voru fyrir landsdómi fóru eftir lögum um einkamál. Eftir einkamálalöggjöfinni var fullkomlega heimilt, alveg fram til að mál skyldi dómtekið, að afturkalla stefnuna á dómnum og falla frá málshöfðuninni. Þau lög giltu þegar þeir allir eru að skrifa, þ.e. Bjarni Benediktsson, Ólafur Jóhannesson, Gunnar Schram og loks Andri Árnason. — Fyrirgefið, hann var víst eftir það því að lögin breyttust 1991 þegar opinberu lögin komu inn. En engu að síður, þetta var alltaf í gildi, þessi heimild var alltaf til staðar, þannig að það breyttist ekkert 1. janúar 2009. Það er bara einfaldlega ekki rétt. Eftir að hafa farið í gegnum þessa ágætu fræðimenn kemur það í ljós.

Vitnað hefur verið í prófessor emeritus Sigurð Líndal sem skrifaði grein í tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. Ef sú tilvitnun sem þar er er lesin gaumgæfilega sést hvað Sigurður á við. Ég veit ekki hver hans persónulega skoðun er, hann var ekki spurður um það sérstaklega. En í greininni fjallar hann um það hvað gerist ef saksóknari Alþingis leitar aftur til Alþingis og segir: Málið er þannig vaxið að ég tel ekki sakfellingu vísa. Hvað á Alþingi að gera ef saksóknari Alþingis gerir tillögu til Alþingis? Þá segir Sigurður: Að sjálfsögðu gerir Alþingi þá eitthvað í málinu. Hann er ekki að fjalla um frumkvæðisrétt Alþingis sjálfs í málinu, alls ekki.

Af því að menn segja: Þetta eru bara — ég held að Róbert Spanó eða einhver annar orði það svo — túlkanir fræðimanna, túlkanir fræðimanna eru ekki lög.

Þetta er ekki rétt staðhæfing heldur. Það var dr. Bjarni Benediktsson sem fékk Ólaf Jóhannesson, þeir sátu þá báðir á þingi, til að semja fyrir sig lög um landsdóm. Við þá lagasmíð skrifar Ólafur Jóhannesson greinargerð sem Bjarni Benediktsson vitnar síðan til þegar hann flytur þetta mál í Alþingi á sínum tíma og vísar til þess að þarna sé alveg sérstaklega góð og vönduð greinargerð sem taki á þeim helstu ágreiningsmálum og nýmælum sem koma upp í lögunum o.s.frv. Þar skrifar hann í greinargerðina með ráðherraábyrgðarlögunum og segir: Málið er eins og alkunna er úr höndum þingsins.

Þetta eru því ekki kenningar fræðimanna, þetta eru kenningar og skoðanir fræðimanna sem eru meitlaðar inn í lögskýringargögn sem varða það hvernig við túlkum stjórnarskrána okkar saman með lögunum um ráðherraábyrgð. Svo einfalt er það. Þetta eru ekki bara kenningar fræðimanna. Það er rangt að halda því fram. Allir fræðimenn sem eitthvað hafa skrifað um þetta hafa verið á þessari skoðun.

En það er réttilega bent á hvers vegna menn skrifa ekkert um það. Hvers vegna er ekki skrifað um það sem sett er svona fram eða það rökstutt? Oft er það, og ég held að það eigi við í þessu tilviki, einfaldlega vegna þess að það er svo sjálfsagt. Það er svo sjálfsagt þegar við horfum — ég veit ekki hvað þeir voru að hugsa, en ég veit hvað ég mundi hugsa í dag sem löggjafi. Þá er ég að horfa á uppákomur eins og þessa, nákvæmlega eins og þessa, því að þeir vissu vel að þetta væri erfið ákvörðun fyrir Alþingi. Þið þingmenn fóruð í gegnum mjög erfiða og langa umræðu og komust síðan að niðurstöðu, hún hefur örugglega verið erfið.

Að fenginni þeirri niðurstöðu var málinu lokið og nú skyldi haldið áfram og dómstólarnir látnir kveða upp úr um síðasta orðið um að saksóknari beindi Alþingi í aðra átt. Það er krafist efnislegrar umræðu. Ég held að það sé rangt að halda því fram að hér sé verið að krefjast efnislegrar umræðu. Hv. þm. Birgir Ármannsson segir í Fréttablaðinu í dag að þetta sé einfaldlega um það að kanna hvort þingmeirihluti sé enn til staðar. Það er ekki efnisleg umfjöllun fyrir mig sem stend hér sem varaþingmaður og kom ekkert að þessu máli í upphafi. Það er ekki efnisleg umræða um það hvort sakfelling sé nú líklegri eða ólíklegri. Ég hef engin tök haft á því að fjalla til dæmis um þær ákærur sem átti að setja fram á aðra ráðherra. Það er bara verið að fjalla um hvort skilyrði eru til þess að afturkalla ákæruna og ekkert annað. Að halda því fram að hér fari fram einhver efnisleg umræða er rangt. Það er verið í einhverjum lögfræðilegum trikkum að reyna að koma málinu að aftur fyrir Alþingi. Ég held að þar sé verið að skapa venju eða fordæmi sem er ekki gott fyrir framhald á túlkun stjórnarskrárinnar. Vonandi kemur ný stjórnarskrá, hún gerir raunar ráð fyrir að þetta verði með allt öðrum hætti þannig að vandamálið verður úr sögunni. Kannski reynir aldrei á það í þessu. En það eru nú margir þingmenn á móti þeirri ágætu stjórnarskrá og kannski sitjum við uppi með þá gömlu áfram, ekki skal ég segja til um það.

Það eru því fræðimenn og önnur lögskýringargögn sem styðja þá afstöðu mína um að málið sé úr höndum þingsins, þess vegna eigi að vísa málinu frá, það sé ekki þingtækt. Það hefur fengið ágæta umfjöllun í nefndinni, en það breytir ekki því að enn er ástæða til að ætla að málið sé ekki þingtækt.

Síðan er í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni fjallað um forsendur þess hvenær falla megi frá saksókn. Því er raunar haldið fram að það séu engin skilyrði fyrir því. Það er rangt, því það verður að lesa viðkomandi ákvæði í lögunum um meðferð opinberra mála með hliðsjón af þeim ákvæðum sem fjalla um útgáfu ákæru. Þar eru skilyrðin alveg ljós hverjar eru skyldur saksóknara. Ef þær skyldur breytast eða þær forsendur breytast á að taka nýja ákvörðun. Þess vegna verður maður að skoða af fullri alvöru hvort eitthvað það hafi gerst í málinu sem réttlætti að afturköllun ákæru ætti sér stað.

Sett eru fram nokkur sjónarmið um það í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni. Það er eiginlega byggt á því — ef ég les hana rétt, ég biðst forláts við flutningsmann ef ég les hana ekki rétt. Ég reyndi að greina þær ástæður sem eru greindar fyrir þessu og þær eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi að síðan 2008 hafi „margt komið fram sem skýrt hefur enn frekar aðstæður þær og ástæður sem leiddu til áfalls þess sem íslenskt samfélag varð fyrir.“ Og síðar í textanum: „Allt þetta gefur til kynna að síðustu mánuðina í aðdraganda falls íslensku viðskiptabankanna hafi ástandið verið illviðráðanlegt fyrir íslensk stjórnvöld.“ Þetta er fært fram sem rök.

Ég hlustaði á umræður hv. þingmanna þegar fjallað var um málið. Þetta var mjög á dagskrá þar. Það er ekkert nýtt í þessu. Þetta hafa þingmenn fjallað um nú þegar, það er ekkert nýtt í þessu.

Síðan segir að veigamestu ákæruliðunum — sem saksóknari Alþingis, sem kom í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, er alls ekki sammála um að hafi verið veigamestu ákæruliðirnir — hafi verið vísað frá. Um það er að segja að þeir eru enn eftir til fyllingar öðrum ákæruliðum, það er númer eitt. Í öðru lagi það að saksóknarinn upplýsti nefndina um að þetta breytti engu um rekstur málsins. Við höfum því upplýsingar frá saksóknara Alþingis um það mál.

Það eru ekki neinar forsendur fyrir því, jafnvel þótt þingmenn mundu telja það að þeir hefðu þennan frumkvæðisrétt, að þeir mundu nota hann. Það eru engar ástæður til þess. Það hefur ekkert nýtt komið fram í málinu sem bendir til þess.

Hvað varðar það að fallið hafi verið frá tveimur ákæruliðum er landsdómur sérstaklega búinn að fjalla um það. Hann er sérstaklega búinn að fjalla um hvaða áhrif það skuli hafa. Hann er búinn að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár og hafi ekki áhrif. Rökin eru því ekki til staðar.

Síðan er rétt að lokum að fjalla um heimildir Alþingis til að falla frá saksókn. Ég hegg eftir því í greinargerð 2. minni hluta að hann er kominn á svolítinn flótta undan þessu. Enginn vafi er á því að í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni er sérstaklega vísað til 146. gr. laga um meðferð sakamála sem fjalla um það þegar fallið er frá saksókn. Það eru raunar færð nokkur rök fyrir því í greinargerðinni með tillögunni. Þá er það þannig að talin eru upp nokkur atriði sem ættu að geta réttlætt það.

Við skulum hafa það í huga að það er allt önnur ákvörðun að falla frá ákæru eða falla frá saksókn. Þegar fallið er frá saksókn getur það verið af ýmsum ástæðum sem varða efni málsins sjálfs, en þegar fallið er frá saksókn … (Gripið fram í: Ákæru.) Ruglaði þessu saman, takk fyrir. Þegar fallið er frá saksókn, sem sagt ákæran ekki felld niður, þá er það nokkurs konar náðunarheimild. Hún á við um það þegar sakfelling er næsta vís. Hún á við um það þegar almannahagsmunir krefjast þess að við kveðum ekki upp dóma af því það geti haft mikil og varanleg áhrif á samfélagsfriðinn, eitthvað þess háttar.

Tökum sem dæmi góða ástæðu til að falla frá saksókn. Það er sá órói sem það hugsanlega veldur þegar höfðuð eru mál á hendur mótmælendum, eins og gerðist hér upp úr miðri síðustu öld. Til þess að varðveita friðinn í samfélaginu í málum þar sem liggur annaðhvort fyrir játning eða sakfelling er vís, þá fella menn niður saksókn fyrir fram, þ.e. fyrirframsýkna. Þess vegna skil ég vel að flutningsmaður flytji sig svolítið frá þessari ástæðu sinni eins og hún kemur fram í greinargerðinni. Ástæðurnar sem hann nefnir fyrir þessu eru raunar mjög kúnstugar. Þær eru annars vegar að þetta kosti mikla peninga. Það er nú ekkert nýtt að dómskerfið í landinu kosti peninga, það vissu menn væntanlega þegar þeir settu lögin um landsdóm. Það er líka sagt að þetta geti tafið störf Hæstaréttar. Það er heldur ekkert nýtt. Hæstiréttur er búinn að vera í þessum lögum frá upphafi. Þetta eru því engin rök í málinu. Fyrir utan það, ef við erum að hugsa um peninga sem við eigum náttúrlega að gera, eru sirka tveir mánuðir eftir af þessum málaferlum. Ljóst er að dómur verður kominn í aprílmánuði og málaferlin eru að hefjast á næstkomandi mánudag. Það er ekki mikill sparnaður fólginn í því.

Vegna þess að fjallað var um saksóknina, af því að fjallað hefur verið um saksóknina sérstaklega, þá er ég á þeirri skoðun eins og kom fram við 1. umr. málsins að engar heimildir séu hjá Alþingi Íslendinga til að eiga frumkvæði að því að falla frá saksókn í máli á hendur ráðherra. Alls ekki. 29. gr. er sérákvæði í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um að einhverjir hlutir skuli vera á einhvern hátt. Hins vegar er enginn vafi á því að framkvæmdarvaldið sjálft, forseti Íslands, saksóknari og löggjafarvaldið, geta ráðstafað því hvernig fallið er frá saksókn gegn öllum öðrum. Vegna sérákvæðis í stjórnarskrá er það ekki heimilt að Alþingi hafi frumkvæði að slíku. Það felur einfaldlega í sér stjórnarskrárbrot að ákveða að gera það. Það fæli í sér brot.

Menn hafa í þessum þingsal síðan ég kom hingað alloft kallað fram í ræður þingmanna og sagt að verið væri að brjóta á stjórnarskránni, nú síðast út af dómi sem féll fyrir ekki löngu síðan í svokölluðum gengislánum. Það segir mér að þingmönnum er annt um stjórnarskrána sína. Og mér er annt um stjórnarskrána. Mér er annt um þann eið sem ég skrifaði undir þegar ég kom hingað inn um að ég ætlaði að gæta hennar. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að þegar menn leggja fram tillögu af þessum toga sem til þess er eins gerð að prófa hvort meiri hluti Alþingis hafi breyst af því að einhverjir hafi skipt um skoðun, það feli í sér brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þegar túlkuð eru saman lögin um landsdóm og stjórnarskrá lýðveldisins. Mér þykir það miður ef það yrði niðurstaða Alþingis að taka slíka ákvörðun.

Ég ítreka að ég hef sama viðhorf og meiri hluti nefndarinnar í þessu máli og legg til að þingsályktunartillögunni verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég er einnig sammála því að ef menn taka ekki þá ákvörðun verði tillagan felld.