140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr um frumkvæðisrétt saksóknara. (RR: Dómara.) Ákæruvaldsins. Þetta er nú sama stofnunin. (Gripið fram í.) Ég er ekki í nokkrum vafa um það að ákæruvaldið í þessu landi hefur rétt og skyldu til þess í hefðbundnum málum að falla frá ákæru ef skilyrði eru uppfyllt til þess. Ég tel hins vegar að það eigi ekki við í þessu máli. Ég reyndi að rökstyðja það áðan. Við fengum stjórnarskrá í lok 19. aldar. Við fengum síðan nýja stjórnarskrá 1944 og samfellt allan þann tíma hafa fræðimenn ekki talið að túlka beri stjórnarskrána þannig að Alþingi hafi þennan frumkvæðisrétt. Það eru rök mín.

Síðan aðeins um það hvort eitthvað hafi verið dregið til baka eða ekki. Ég spurði sérstaklega skrifstofu Alþingis að því og fékk þau svör að menn þekktu ekki dæmi þess að ályktun Alþingis hefði verið felld úr gildi. Hins vegar eru fjölmörg dæmi um (Gripið fram í.) að eitthvað sé fellt úr gildi, eins og til dæmis þegar hvalveiðar voru bannaðar og síðan leyfðar að nýju, þá er eitthvað fellt úr gildi með nýrri ákvörðun. Þess vegna sagði ég að ég skildi ekki hvers (Forseti hringir.) vegna tillagan væri orðuð með þessum hætti.