140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég er þess umkominn að mæla fyrir um það hvað sé til sóma Alþingis, sómi Alþingis er mældur af borgurum þessa lands. Hvort álit Alþingis muni vaxa mjög við afgreiðslu þessa máls og þetta mál allt saman, er mér til nokkurs efs. En að öðru leyti ætla ég ekki að dæma það.

Um hugsanlega breytingu á meiri hlutanum, þá er það auðvitað svo eins og menn vita í erfiðum sakamálum að saksóknarar geta legið undir miklum þrýstingi. Svo er í þessu máli. Blaðagreinar birtast um að saksóknari Alþingis sinni ekki starfi sínu. Saksóknarar liggja undir miklu álagi og það gera þingmenn líka. Þetta er þekkt í skrifum sálfræðinga sem hafa fjallað um réttarfar í opinberum málum að saksóknarar geta verið undir miklum þrýstingi. Þetta er líka til í sálfræðinni, svokallað Stokkhólms-heilkenni þegar menn eru komnir í prísund og fara að taka undir með þeim sem þeir áður voru gegn eða hafa kúgað þá. Þannig að (Forseti hringir.) ég held að þetta verði ekki til mikils sóma.