140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:49]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér hefur komið fram að skiptar skoðanir eru um ýmsa hluti varðandi þetta mál. Fyrsta spurningin er: Getur Alþingi gert þetta? Þá heldur maður áfram og spyr: Er það löglegt? Hvort það sé löglegt er greinilega mikið ágreiningsefni. Ef spurt er eingöngu: Getur Alþingi gert þetta? Þá er svarið algjörlega dúndrandi já. Auðvitað getur Alþingi gert ýmislegt. Auðvitað getur Alþingi gert hluti sem eru á mjög gráu svæði lögfræðilega, það er ekkert mál. En er það siðferðilega rétt að fara inn í störf dómstóla sem hafa tekið mál til meðferðar? Er það siðferðilega verjandi af þeirri samkomu sem hér situr í umboði íslensku þjóðarinnar? Ég segi nei við því. Mig langar að vita hvað hv. þingmaður hefur um það að segja. Löglegt en (Forseti hringir.) siðlaust, segi ég. Ég segi að þetta mál snúist ekki um lögfræðilegan ágreining, heldur siðferðilegan.