140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék að því í ræðu sinni að einkennilegt væri að fræðimenn fyrri tíma hefðu ekki rökstutt niðurstöðu sína um þessi efni og kannski hefði það verið vegna þess að svo sjálfsagt hefði þótt að niðurstaðan væri sú hin sama og hann hefur komist að. Þá er ágætt að rifja það upp sem kom fram í framsöguræðu ráðherrans sem flutti landsdómslagafrumvarpið, hann taldi að þarna væri ekki um ýkja raunhæfa löggjöf að ræða. Svo sagði í framsöguræðunni, með leyfi forseta:

„Úr því að við höfum komist af undanfarna hálfa öld með þeim persónulegu illvígu stjórnmáladeilum sem oft hafa verið háðar á því tímabili þá mun það blessast ekki síður héðan í frá.“

Ætli það hafi ekki verið vegna þess að menn töldu málið ekki sérstaklega raunhæft.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvaða þýðingu hann telur úrskurð landsdóms frá því í haust hafa í málinu. Ég tek eftir því að hann vísar ekki til úrskurðar landsdóms sem réttarheimildar um öll þessi efni, en það er nýjasta réttarheimildin sem við höfum um hvernig túlka ber meðferð ákæruvaldsins (Forseti hringir.) og hvar það liggur. Landsdómur sagði skýrt síðastliðið haust: Saksóknari fer ekki með ákæruvaldið, það liggur hjá þinginu.